144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

framkvæmd þingsályktunar um tjáningar- og upplýsingafrelsi.

[11:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili var samþykkt þingsályktunartillaga um að Ísland markaði sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi. Hugmyndin var góð og var samþykkt einróma. Hún fjallaði um að Ísland yrði til fyrirmyndar í tjáningarfrelsis- og upplýsingafrelsismálum, ekki síst af efnahagslegum ástæðum. Hingað til lands hafa komið aðilar og fjárfest og notað íslenska þjónustu á sviði upplýsingatækni í þeirri trú að þessu verki sé lokið. Núna lendum við í þeirri ankannalegu stöðu að það fréttist til útlanda þegar t.d. meiðyrðalöggjöf er beitt á Íslandi. Erlendir blaðamenn reka augun í það ítrekað að það eru fangelsisrefsingar við ýmsum brotum á Íslandi er varða tjáningarfrelsi. Það er til dæmis bannað að gera grín að trúarbrögðum, það er bannað að gera grín að hinu og þessu hérlendis og það eru fangelsisrefsingar við því.

Það eru til eðlilegar takmarkanir á tjáningarfrelsi og við sýnum því fullan skilning, en fangelsisrefsingar eru ekki við hæfi í vestrænu lýðræðissamfélagi eða í hvaða lýðræðissamfélagi sem er.

Miðað við umræðuna í útlöndum finnst mér eins og við séum svolítið að missa af þeim tækifærum sem þingsályktunartillögunni var ætlað að skapa. Því langar mig til að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í fullri vinsemd: Hvað þurfum við að gera til að klára þetta verkefni og koma því á fót þannig að orðstír Íslands á erlendri grundu verði réttur?