144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

málefni tónlistarmenntunar.

[11:28]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, fyrir að taka þetta mál hér upp. Það er rétt, sem kemur hér fram, að það er gríðarlega mikilvægt að ræða þetta mál, jafnvel þó að það sé í skugga verkfallsins sem nú stendur yfir. Staðan er afar dapurleg, tónlistarnemendur bíða heima og fá ekki tækifæri til að fylgja eftir því námi sem þeir hafa þó keypt aðgang að.

Þetta er enn dapurlegra vegna þess að við vitum öll hversu mikil gróska hefur verið í tónlistarlífi á Íslandi og hve tónlistarskólarnir hafa skipt gríðarlega miklu máli í þeirri uppbyggingu, hversu mikilvæg tónlistin er og stuðningur hins opinbera varðandi alla menningu og tónlistarflutning í þessu landi.

Það er mikilvægt fyrir okkur að horfa til þess hversu tónlistarmenntun og metnaðarfull listmenntun er mikilvæg fyrir þroska og nám hvers barns og raunar fullorðins fólks hvað varðar tilfinningalæsi og sjálfsmynd. Sköpun, sem þarna er líka stunduð, er einn af grunnþáttum menntunar og mikilvægasta hugmyndafræði listgreinakennslu er jafnframt að samþætting listgreina við aðrar námsgreinar aukist í almennu skólastarfi.

Ég nefni þetta hér vegna þess að ég hef áhyggjur af þessu í þeirri skólastefnubreytingu sem boðuð er af hæstv. ráðherra. En það sem við erum að fjalla um er líka það samkomulag sem gert var til þess að tryggja að nemendur væru ekki að borga gjöld, eða réttara sagt sveitarfélög sín á milli, en við skulum ekki gleyma því að ágreiningurinn við sveitarfélögin var líka um það að tónlistarskólar eru farnir að skila námseiningum inn í framhaldsskóla. Það er hluti af ástæðunni fyrir því að ríkið þurfti að borga, það voru svokallaðar „þreyttar einingar“, þ.e. að ríkið borgaði fyrir framhaldseiningar í skólunum.

Það er mikilvægt að þessi ágreiningur verði leystur til lengri tíma og væri gaman að heyra hvort hæstv. ráðherra sé sammála því sem var í drögum um lög um tónlistarskóla, að framhaldsfræðslan fari til ríkisins.

Aðeins í lokin. (Forseti hringir.) Við verðum öll að leggjast á eitt um að leysa þá kjaradeilu sem nú eru í gangi og fylgja eftir þeim sjálfsögðu (Forseti hringir.) kröfum sem tónlistarkennarar hafa um að þeir fái sömu laun og grunnskóla- og leikskólakennarar.