144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

málefni tónlistarmenntunar.

[11:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að vekja máls á spurningunni um það hver eigi að borga. Mér finnst svolítið skrýtið að ekki sé talað meira um það. Eiga einstaklingarnir að borga fyrir nám sitt eða eiga sveitarfélögin að borga þetta eða ríkið? Mig langar að færa fyrir því rök að ríkið eigi að borga þetta. Kannski yfirsést mér eitthvað í þeirri niðurstöðu en ég ætla alla vega að færa örfá rök fyrir því á þeim stutta tíma sem við höfum til að ræða þetta.

Nú er ég síðasti maðurinn til að vilja efla íslenskan þjóðarhroka, mér þykir þó nokkuð mikið af honum. Oft er sagt að Ísland sé frábærasta land í heimi á öllum sviðum og þá er ég yfirleitt leiðinlegi gæinn sem segir: Ja, kannski ekki alveg best í heimi í öllu, það er ýmislegt að hérna og það er fullt af hlutum sem eru skemmtilegir við Ísland sem eru líka skemmtilegir við önnur lönd.

En ég hef tekið eftir því að tónlist er eitt af því sem er mjög sérstakt við Ísland. Þegar ég er erlendis ásamt öðrum Íslendingum, það er eiginlega sama á hvaða samkundu það er, þá kemur fyrr eða síðar í ljós að meira eða minna allir Íslendingarnir ýmist kunna að syngja — eða gera það þótt þeir kunni það ekki — eða spila á hljóðfæri eða hvort tveggja, yfirleitt hvort tveggja. Það þykir eiginlega sjálfsagt á Íslandi að spila aðeins á gítar eða kunna að taka í píanó og svoleiðis. Þetta er að mínu mati þjóðareinkenni sem ég held að Íslendingar upp til hópa átti sig hreinlega ekki á. Það er mjög sérstakt hvað Íslendingar eru tónelskir. Við áttum okkur ekki endilega á því að við erum heimsþjóð í tónlist.

Þá vaknar spurningin: Hvernig ætlum við að viðhalda þessu? Jú, það er annað sem er mjög sérstakt við Ísland og það er íslenska tungumálið sem hvergi annars staðar er talað. Ég álít að besta leiðin til að vernda íslenska tungu til lengri tíma sé í gegnum listina — og með því að efla hana á tæknisviðinu, en það er kannski annað og tæknilegra málefni.

En ef við ætlum að halda þessu tungumáli okkar næstu 100 eða 200 árin (Forseti hringir.) tel ég einsýnt að við þurfum að viðhalda ríkri listsköpun. Ég tel það (Forseti hringir.) hugsanlega eiga að vera á höndum ríkisins.