144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

málefni tónlistarmenntunar.

[11:37]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að taka þetta mál hér upp. Við höfum lengi talað um samskipti ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að tónlistarskólum á framhaldsskólastigi og eins og var nefnt í upphafi og varðaði hreinlega vistarbönd gátu nemendur ekki meðfram framhaldsnámi sínu stundað tónlist í öðru sveitarfélagi. Það er því auðvitað mjög mikilvægt að við klárum þessi mál og vert að vita hversu mikið ber á milli, hvort það er samtal í gangi og hvort ríkið ætlar að bæta við sinn hlut er varðar þessa samninga.

Við vitum svo sem alveg að virði tónlistar felst ekki eingöngu í peningum heldur í ánægju, vellíðan og öðru slíku. Hér voru nefndar áðan skapandi greinar og verðamætasköpun í tónlist er í kringum 20 milljarðar á ári og þekking á landinu, eins og kom líka fram, er mikil í gegnum tónlistarfólk. Ég held að við séum öll sammála um að við þurfum að leysa þetta mál. Togstreita á milli ríkis og sveitarfélaga á auðvitað ekki að bitna á kennurum sem nú eru í verkfalli, m.a. vegna þess að þeir fá ekki sams konar samninga og Kennarasambandið er með, að þeir telja a.m.k. Ég tel að það blómlega líf sem er í tónlistinni sé í hættu.

Mig langar í lokin að vitna í fyrrverandi menntamálaráðherra Gylfa Þ. Gíslason sem sagði, með leyfi forseta:

„Almenningur á Íslandi gerir sér áreiðanlega ekki ljóst hvert starf er unnið í tónlistarskólunum og hversu snar þáttur þeir eru orðnir í heilbrigðu uppeldisstarfi og hversu sterk stoð þeir eru tónlist á Íslandi og þar með íslenskri menningu […] Þótt skólastörf eigi að vinna í kyrrþey og ekki eigi að auglýsa árangur, jafnvel ekki afrek í fjölmiðlum er hitt ástæðulaust að almenningi sé ekki gert ljóst ef vel er unnið þegar ástæða er til að halda að honum sé það ókunnugt. Í tónlistarskólunum er unnið svo merkilegt og gott starf að allir þeir sem kunna að meta menningargildi tónlistar eiga ekki aðeins að vita um það heldur einnig að þakka það.“

Af því að ég veit að hæstv. menntamálaráðherra er mikill unnandi tónlistar spyr ég aftur: (Forseti hringir.) Er verið ræða, er samtal í gangi? Og á að bæta í af hálfu ráðuneytisins?