144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

málefni tónlistarmenntunar.

[11:44]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég bý að þeirri reynslu að hafa leitt samningaviðræður fyrir stéttarfélag í fyrra lífi mínu, áður en ég fór að taka þátt í pólitíkinni. Það er flókið og erfitt viðfangsefni. Ég bjó samt sem áður við þann lúxus að lagaramminn í kringum það sem ég fékkst við á þeim tíma var alveg skýr og verkaskipting á hreinu. Í raun og veru þurftu blaðamenn ekki að gera neitt annað á þeim tíma en að semja um krónur og aura við þá sem áttu og ráku fjölmiðla.

Því er því miður ekki að fagna í þessu sem við tölum um hér. Á ferðinni er mjög flókin deila ólíkra félaga, ólíkra sveitarfélaga og ríkisins. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, það er ótrúlegt að við skulum ekki vera búin að koma þessum málaflokki og fjölda annarra í þann farveg að hægt sé að einfalda hlutina og fást um bara krónur og aura.

Deilan sem við horfum framan í hér er birtingarmynd ófullburða stjórnmálakerfis og stjórnsýslu sem er ekki búin að ganga frá því hvað heyrir til hvers friðar í þessum efnum, verkaskipting milli sveitarfélaga og ríkis ófullkomin og ófrágengin og sami veruleiki er því miður uppi á borðum í allt of mörgum málaflokkum.

Það er verkefni okkar í stjórnmálunum að ganga frá þessu og að haga stjórnmálamenningunni þannig að hægt sé að gera það til frambúðar þannig að hún sé ekki, eins og því miður er allt of oft, og einkennist ekki af togi milli ólíkra hagsmuna fram og til baka þar sem hlutum er breytt eftir því hver er í stjórn hverju sinni.

Ég vil rétt í lokin biðja hæstv. menntamálaráðherra um að koma með skýr svör um það hvar vinna við frumvarp um tónlistarnám er stödd og hvenær þess megi vænta hingað í þingið.