144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

málefni tónlistarmenntunar.

[11:51]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum sem hér hafa talað í þessari umræðu. Ég skil hana sem svo að við sem hér höfum talað a.m.k. erum öll sammála um gríðarlegt mikilvægi tónlistar fyrir samfélagið, fyrir atvinnulífið, fyrir okkur öll sem einstaklinga. Það mikilvægi verður ekki slitið sundur frá mikilvægi tónlistarmenntunar og tónlistarnáms, því kerfi sem hefur verið grunnurinn að allri þeirri velgengni sem hv. þingmaður sem hér talaði á undan mér var að rekja. Það er kerfi tónlistarskóla þar sem við höfum getað boðið upp á ótrúlega gott aðgengi að tónlistarnámi um land allt og þannig veitt fólki hið nauðsynlega frelsi sem það þarf til að þroska og þróa sína hæfileika. Við erum samt í vanda stödd.

Mér þykir mjög miður að samkomulaginu sem var ætlað að efla tónlistarmenntun í landinu er nú kennt um mjög erfiða stöðu margra tónlistarskóla í Reykjavík. Ég held að við séum að horfa framan í það að tíminn fer að styttast sem við höfum til að leysa úr þessu máli. Ég heyri það sem margir hv. þingmenn segja úr ólíkum flokkum að mikilvægt sé að skýra verkaskiptinguna. Ég tel hana í raun og veru skýra, hún er í gildandi lögum. Við skulum heldur ekki gleyma því að það ástand er ekkert óumbreytanlegt. Því hefur verið breytt með lögum áður 1985 og síðan á fyrri tímum. Við finnum líka að það er eftirspurn eftir því að við endurskoðum þetta fyrirkomulag. Það var boðað í samkomulaginu. Það tókst því miður ekki að ljúka því á þeim tíma sem stefnt var að. Það er ekki gott. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að hraða þeirri vinnu.

Ég heyri líka að hv. þingmenn telja að æskilegasta fyrirkomulagið væri að skipta verkum þannig að ríkið taki við framhaldsstiginu og þá hugsanlega framhalds- og miðstigi í söngnáminu sem lýtur öðrum lögmálum en annað tónlistarnám. Sveitarfélögin fari með grunn- og miðstigið. Til að þetta gangi eftir þarf ný lög.

Mig langar að ítreka þá spurningu (Forseti hringir.) sem hefur komið fram til hæstv. ráðherra: Er hann sammála því að þetta væri æskilegt (Forseti hringir.) fyrirkomulag? Og óháð því hvað honum finnst um það, eigum við von á slíku frumvarpi á þessum þingvetri?