144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

málefni tónlistarmenntunar.

[11:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu og eins hv. þingmönnum fyrir þátttökuna.

Ég vil segja fyrst um verkaskiptinguna. Hún er alveg skýr. Ekki hafa verið gerðar neinar breytingar þar á, það liggur alveg fyrir. Eina sem breyttist var að ríkisvaldið kom og sagði: Við viljum bæta við fjármunum til þess að auðvelda sveitarfélögum það að nemendur geti farið á milli sveitarfélaga og sótt sitt tónlistarnám eins og hentar. Til þess voru fjármunirnir settir þarna inn, ekki til þess að þar með gæfist tækifæri fyrir einstök sveitarfélög að draga til baka þá fjármuni sem áður höfðu verið veittir til þessa. Hvergi var hreyft við því samkomulagi og þeirri verkaskiptingu sem til grundvallar lá og þar af leiðandi heldur ekki þeim tekjustofnum sem lagðir voru til grundvallar eða skiptingu á þeim til að sinna þessum verkefnum.

Hvað varðar að ríkið taki yfir framhaldsskólafræðsluna alla vil ég benda á að þar munu auðvitað koma upp ýmis vandamál ekkert ólík því sem við erum að fást við hér. Það eru starfandi skólar með kennslu frá grunnstigi, miðstigi og upp í framhaldsstig og ef um slíkt væri að ræða væri eina og sama skólastofnunin að starfa annars vegar hjá sveitarfélögunum og hins vegar hjá ríkinu. Þá sjá menn nú hvaða flækjustig það mundi búa til. Menn verða því að fara varlega og gera þetta af mikilli yfirvegun og skynsemi.

En það er annað mál og ég held að menn verði að leysa þá kjaradeilu sem uppi er án þess að í henni sé verið að véla um þessa hluti. Þessa hluti verða ríki og sveitarfélög að leysa sín á milli.

Ég ítreka að það liggur fyrir hvert fyrirkomulagið er. Það er bara túlkun á þessu samkomulagi sem ég er ósáttur við og ég veit að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, þáverandi hæstv. ráðherra, er líka ósátt við hana, því það var alltaf hugsað sem viðbót. Það eru mér vonbrigði hvernig menn hafa nálgast málið af hálfu einstakra sveitarfélaga.

Hitt er líka alveg rétt sem kom fram t.d. í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar um einingabært nám, (Forseti hringir.) hver eigi að greiða fyrir það og svo framvegis. Við þurfum að hafa skýra (Forseti hringir.) afstöðu til þess.

Varðandi spurningar um nýtt frumvarp geri ég mér væntingar um að það verði eftir áramót á vorþingi. Ég geri mér (Forseti hringir.) væntingar um að það takist. Ég vona það svo innilega. Það skiptir máli að það komi fram.