144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

lögreglulög.

372. mál
[12:18]
Horfa

Flm. (Eyrún Eyþórsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996. Með frumvarpi þessu er lagt til að verkfallsréttur lögreglumanna verði endurreistur með því að fella úr gildi 31. gr. lögreglulaga. Ég flyt frumvarpið ásamt hv. þingmönnum Svandísi Svavarsdóttur og Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur.

Landssamband lögreglumanna hefur um langt skeið reynt að ná fram kjarabótum fyrir lögreglumenn með litlum árangri. Landssambandið hefur ekki aðeins lagt áherslu á hærri laun heldur einnig önnur kjaramál. Landssambandið hefur til að mynda lagt ríka áherslu á að lögreglumenntun færist upp á háskólastigið og lagt fram kröfur um betri öryggisbúnað lögreglumanna en slíkum kjaralegum kröfum hefur ekki verið svarað.

Því er ekki ofsögum sagt að lögreglumenn hafi fá sem engin tæki í höndum sér til baráttu fyrir betri kjörum og mundi verkfallsrétturinn því skipta gríðarlega miklu máli, hvort sem hann yrði einhvern tíma nýttur eða ekki. Verkfallsheimild er stéttarfélögum mikilvæg til að skapa sterkari samningsstöðu gagnvart vinnuveitendum og mundi gera stöðu lögreglumanna jafnari öðrum stéttum sem réttinn hafa.

Til að glöggva okkur betur á kjörum lögreglumanna má nefna að grunnlaun nýútskrifaðs lögreglumanns sem vinnur í almennri deild lögreglu eru 278 þús. kr. Eftir 15 ár í starfi hafa laun hans hækkað í rúmlega 320 þús. kr. og eftir það eru engar frekari launahækkanir sem almennur lögreglumaður fær. Fari viðkomandi í starf rannsóknarlögreglumanns á hann möguleika á vaktaálagi og þá eru laun hans í byrjun 307 þús. kr. Útborguð laun skríða þó varla yfir 200 þús. kr. og það segir sig sjálft að erfiðlega gengur að framfleyta fjölskyldu á þeim launum, enda eru þau langt undir neysluviðmiðum.

Dæmi eru til um löreglumenn sem eftir 42 ár í starfi eru með 350 þús. kr. í grunnlaun og jafnvel eru til fjöldamörg dæmi um afburðalögreglumenn sem hætt hafa störfum sökum þess að launin duga ekki til fyrir grunnframfærslu fjölskyldunnar. Þannig hefur tapast mikilvæg þekking auk þess sem þeir fjármunir sem fóru í menntun lögreglumannsins fóru forgörðum. Reynslan sýnir jafnframt að þegar vel árar efnahagslega segja margir lögreglumenn upp störfum og leita á ný mið þar sem hærri laun eru í boði. Ég held að það þurfi varla að taka fram hversu mikilvægt það er að innan lögreglunnar haldist það góða fólk sem þar starfar og sú mikla þekking sem það fólk býr yfir. Á sama hátt má ítreka það að vegna lélegra kjara hefur lögreglan misst mikið af framúrskarandi fólki og það er miður, ekki bara fyrir lögregluna heldur samfélagið í heild sinni.

Nú getur verið að einhverjir velti fyrir sér heildarlaunum lögreglumanna í stað grunnlauna og það verður að viðurkennast að lögreglumenn geta undir vissum kringumstæðum hækkað laun sín verulega með því að vinna vaktir og taka aukavaktir. Það er því mikilvægt að benda á að það er ekki kostur fyrir alla að vinna vaktavinnu eða mikla aukavinnu. Til dæmis eiga einstæðir foreldrar erfitt með það, jafnvel foreldrar ungra barna, hjón þar sem báðir aðilar eru lögreglumenn eða í annarri vaktavinnu o.s.frv. Lágmarkskrafan ætti að vera sú að lögreglumenn gætu framfleytt sér á grunnlaunum einum saman. Sú er ekki reyndin í dag.

Þá má jafnframt nefna að rannsóknir hafa margoft sýnt fram á heilsufarslega áhættu vaktavinnufólks. Sýnt hefur verið fram á að einstaklingar sem vinna vaktavinnu verða skammlífari en þeir sem ekki vinna slíka vinnu og eru í aukinni hættu á að fá lífshættulega sjúkdóma og þjást af þunglyndi. Af þeim sökum er mikilvægt að stytta vinnutíma vaktavinnufólks og geta lögreglumenn lagt áherslu á það með skírskotun til verkfallsréttar að vaktavinnufólk vinni skemur en dagvinnufólk og þurfi þar fyrir utan ekki að skila inn aukalegu vaktaálagi. En þessu líkt og öðrum kjaralegum þáttum hefur lögreglumönnum gengið illa að ná fram. Það er bersýnileg þörf á verkfallsrétti til að styðja við réttmætar kröfur.

Kjaramál lögreglumanna snúa ekki aðeins að krónum og aurum heldur einnig að öðrum þáttum eins og aukinni menntun, betra starfsumhverfi og betri öryggisbúnaði svo að nokkur dæmi séu tekin. En allt eru þetta mál sem erfiðlega hefur gengið að ná fram í kjaraviðræðum. Hefur það orðið til þess að lögreglumenn eru samstiga í þeim vilja að fá verkfallsrétt sinn að nýju.

Vel má færa rök fyrir því að verkfallsréttur sé mannréttindi. Félagafrelsi er verndað í 74. gr. stjórnarskrárinnar og í fjölmörgum alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Til dæmis má nefna 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var með lögum 1994, og félagasáttmála Evrópu, sem fullgiltur var hér á landi 1976. Félagafrelsi lýtur ekki aðeins að rétti til að stofna félög og eiga aðild að þeim heldur einnig til að standa utan félaga. Jafnframt er frelsi talið ná að einhverju marki til athafnafrelsis félaga til að tryggja og standa vörð um hag félagsmanna sinna. Þrátt fyrir að félagafrelsið feli ekki í sér skilyrðislausan rétt til verkfalls þá er það engu síður talinn mikilvægur hluti samningafrelsis félaga sem nýtur verndar samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum. Hér legg ég áherslu á mikilvægi verkfallsréttarins. Því er ljóst að takmörkun slíks réttar skal byggð á lögmætum sjónarmiðum og nauðsyn í lýðræðisþjóðfélagi.

Ekki fer á milli mála að ávallt er nauðsynlegt að tryggja lágmarksöryggisgæslu í samfélaginu en fjöldi lögreglustarfa fellur utan við það og vandséð að ástæða sé til að afnema verkfallsrétt allra sem þeim gegna.

Lögreglumenn hafa haft hátt um þá kröfu sína að verkfallsrétturinn verði endurreistur en hann var afnuminn með lögum nr. 82/1986, sem fólu í sér breytingar á þágildandi lögreglulögum. Fram til þess tíma höfðu lögreglumenn rétt til verkfalls líkt og aðrar stéttar innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja með þeim fyrirvara að skylt væri að halda uppi nauðsynlegri öryggisgæslu á meðan verkfall stæði, samanber 56. gr. þágildandi laga um samningsrétt BSRB, nr. 29/1976.

Afnám verkfallsréttar var hluti af samkomulagi milli Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra í júlí 1986. Kveðið var á um afnám verkfallsréttar í bókun við samkomulagið en í stað þess skyldu lögreglumenn fá svokallaða kauptryggingu ef ekki næðust samningar um kjör þeirra. Kauptryggingin átti að fela í sér sömu meðalhækkun launa og bandalög opinberra starfsmanna fengju á hverjum tíma. Þau félög sem miða átti við voru BSRB, Bandalag háskólamanna, Samband íslenskra bankamanna og Bandalag kennarafélaga. Skyldi útreikningurinn vera í höndum Hagstofu Íslands. Allt frá því að samkomulagið tók gildi voru uppi ólík sjónarmið um framkvæmd þess milli lögreglumanna annars vegar og ríkisins hins vegar.

Útreikningar kauptryggingar fóru ekki fram fyrstu árin eins og til stóð og gerðu lögreglumenn ítrekaðar athugasemdir við það. Eftir mikinn þrýsting af þeirra hálfu framkvæmdi Hagstofa Íslands umrædda útreikninga árið 1988 að beiðni fjármálaráðherra. Samkomulagið hafði kveðið á um möguleika til endurskoðunar á útreikningum af hálfu Landssamband lögreglumanna en ekki var um slíkt að ræða í reynd. Fyrirkomulagið reyndist aldrei vel.

Það er mikilvægt að hér komi fram að landssambandið taldi, þegar hér var komið sögu, að samningsréttarákvæði kjarasamningsins frá 1986 væri brostið og óskaði meðal annars eftir því að lögreglumenn fengju aftur verkfallsrétt en án árangurs. Landssamband lögreglumanna hefur ítrekað síðan þá óskað eftir því að lögreglumenn fái verkfallsrétt sinn að nýju en þeim kröfum hefur í engu verið sinnt af hálfu ríkisvaldsins.

Samkomulagið var endurskoðað sex árum síðar og viðmiðunarákvæði tekið út og áttu viðsemjendur í kjölfarið, næðu þeir ekki samkomulagi, að vísa máli sínu í þriggja manna gerðardóm.

Kjarasamningar lögreglumanna hafa þrisvar farið þá leið, síðast haustið 2011. Að mínu mati sýnir þetta hversu erfiðlega hefur gengið fyrir lögreglumenn að ná fram kjarabótum. Þess má geta að árið 2011, þegar gerðardómur ákvarðaði um laun lögreglumanna, var almenn óánægja með þá litlu launahækkun sem þeir fengu á þeim tíma. Þess má geta að síðasti kjarasamningur við lögreglumenn var gerður árið 2005 fyrir níu árum.

Það eru mörg góð og gild rök fyrir því að lögreglumenn ættu að vera launahærri stétt en þeir eru. Fyrir það fyrsta sinna lögreglumenn gríðarlega mikilvægri samfélagslegri þjónustu. Lögreglumenn eru tilbúnir til að vinna í alls kyns kringumstæðum á öllum tímum sólarhringsins og veigra sér ekki við neinu verkefni, hversu stórt eða lítið sem það er, hvort sem þeir eru að huga að slösuðum, tilkynna foreldrum um sjálfsvíg barns, aðstoða brotaþola í kynferðisbroti eða stilla til friðar í heimilisofbeldi svo að dæmi séu tekin.

Hér nefni ég aðeins fá rök með hærri launum og betri kjörum og ítreka að í gegnum tíðina hefur það reynst lögreglumönnum, án verkfallsréttar, erfitt að ná fram kjaralegum markmiðum. Að mati lögreglumanna hafa þeir dregist aftur úr þeim viðmiðunarstéttum sem miðað var við í fyrrgreindu samkomulagi sem fól í sér afnám verkfallsréttarins. Ein ástæða þess er án efa sú staðreynd að lögreglumenn geta ekki gripið til þess neyðarúrræðis sem verkfallsrétturinn er til jafns við aðrar stéttir samfélagsins náist ekki viðunandi niðurstaða í viðræðum um kjaramál.

Eins og fram hefur komið sinnir lögreglan afar mikilvægum störfum tengdum öryggi lands og þjóðar. Sú sérstaða virðist með núverandi fyrirkomulagi vinna gegn stétt lögreglumanna hvað kjaramálin varðar frekar en stuðla að auknum réttindum vegna mikilvægis þeirra í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er því lagt til að verkfallsréttur lögreglumanna verði endurreistur með breytingum á lögreglulögum nr. 90/1996, á þá leið að 31. gr. þeirra verði felld úr gildi. Legg ég til að málinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar að umræðu lokinni.