144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

lögreglulög.

372. mál
[12:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég man rétt var þetta í októbermánuði en það skiptir ekki öllu máli, ég minnist þessa af tilteknum ástæðum að það var í miklu nágrenni við þingsetningu það ár.

Það var fleira þarna á borðum í umræðunum. Nú man ég ekki nákvæmlega efnislega hvað gekk inn í samkomulagið en ég man að við ræddum um menntunarmál, eftirlaunaréttindi og starfslokakjör og fjárveitingar í sérstakan sjóð til að greiða fyrir því að eldri lögreglumenn gætu farið á eftirlaun án þess að missa eitthvað í eftirlaunaréttindum og annað í þeim dúr. Það er örugglega rétt munað hjá hv. þingmanni að verkfallsrétturinn var nefndur, enda bar hann á góma á fundum sem við áttum einmitt af þessu tilefni. Ég hef ekki skipt um skoðun frá þeim tíma. Sjálfsagt hef ég reifað það sjónarmið mitt þarna, eða mér þykir það líklegt, að ég teldi reynsluna af öllum þeim samskiptum sem hv. flutningsmaður, Eyrún Eyþórsdóttir, rakti mjög vel væri eiginlega að færa okkur heim sanninn um að það væri eðlilegast að fara í hið hefðbundna fyrirkomulag að lögreglumenn, ef þeir svo vildu, fengju sinn verkfallsrétt.

Hvers vegna var ekki meira aðhafst í þeim efnum af minni hálfu? Skemmst er frá því að segja að þarna lifir skammt ársins 2011 og 1. janúar 2012 tók ég við öðrum ráðuneytum og var ekki fjármálaráðherra eftir það. Ég þekki ekki framhald málsins frá þeim sjónarhóli, þ.e. ég hef ekkert fylgst með eða sett mig inn í hvernig samskipti fjármálaráðuneytisins eða samninganefndar ríkisins og lögreglumanna hafa gengið síðan þá fyrr en þær upplýsingar sem hafa verið að birtast í tengslum við þetta mál. Það er skýringin sem ég hef eða svarið sem ég hef að þetta mál var ekki í mínum höndum þá nema í eina tvo mánuði í viðbót sem ráðherra.