144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

lögreglulög.

372. mál
[12:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi var með þessu samkomulagi bætt verulegum fjármunum inn í ákveðna þætti. Það var liður í því að ná þessu saman. Þetta var svolítið óvenjulegt vegna þess að þarna féll gerðardómur sem lögreglumenn sjálfir höfðu óskað eftir. Þeir vísuðu málinu í gerðardóm í júní 2011, ef ég man rétt, og svo féll gerðardómurinn og kom talsvert til móts við óskir lögreglumanna. Engu að síður voru þeir mjög óánægðir með niðurstöðuna. Þá er brugðið á það óhefðbundna ráð að fara í viðræður þrátt fyrir fallinn gerðardóm sem er samkvæmt kjararéttinum í raun niðurstaðan.

Ég held að hv. þingmaður hljóti að viðurkenna að stjórnvöld sýndu mikinn sveigjanleika og vilja við þessar óvenjulegu aðstæður vegna þess að gerðardómurinn var fallinn. Stjórnvöld gátu í sjálfu sér sagt: Það er komin niðurstaða í málið, fallinn gerðardómur sem lögreglumenn sjálfir óskuðu eftir. Vegna þessarar óánægju, sem var og er skiljanleg því að kjör lögreglumanna eru ekki nægjanlega góð, var engu að síður farið í þessar viðræður og niðurstaðan var að leggja talsverða fjármuni í viðbót í tiltekna þætti til að liðka fyrir samkomulaginu. Eitthvað af þeim fór í eftirlaunatengd viðfangsefni.

Nú heyra lögreglumál ekki undir fjármálaráðuneyti heldur innanríkisráðuneyti. Fjármálaráðherra kemur eingöngu að lögreglunni vegna samningagerðar við hana. Á sama tíma var verið að vinna heilmikið starf í tíð þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, sem leiddi af sér skýrslur og tillögur um ýmsar úrbætur og fjölgun í almennri löggæslu og fjárveitingar sem síðan hafa viðhaldist. Talsvert meira fé hefur verið sett í almennu löggæsluna, ekki síst til að fjölga einfaldlega í almennri löggæslu.

Það er sjálfsagt rétt að þarna voru líka þættir sem tengdust öryggismálum og menntunarmálum. Ég verð að játa að ég þekki ekki nákvæmlega hvernig því hefur síðan verið fylgt eftir (Forseti hringir.) enda væntanlega að minnstu leyti á hendi fjármálaráðuneytisins heldur meira á hendi (Forseti hringir.) fagráðherrans sem fer með málefni lögreglunnar.