144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

virðisaukaskattur.

41. mál
[14:20]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi sem er að finna á þskj. 41 og varðar breytingu á lögum um virðisaukaskatt, þann part sem lýtur að endurbyggingu og viðhaldi kirkna. Með þessu frumvarpi er lagt til að við lögin um virðisaukaskatt bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti skuli inna af höndum vegna vinnu við endurbyggingu og viðhald kirkna og húsakynna þar sem athafnir fara fram á vegum þjóðkirkjusafnaða, annarra trúfélaga og sömuleiðis lífsskoðunarfélaga. Ég legg sérstaklega áherslu á að frumvarpið tekur til þessara þriggja stofnana vegna þess að með því er undirstrikað að það er fullt jafnræði með þeim sem trúa og þeim sem trúa ekki.

Þetta ákvæði sem hér er lagt til að verði skeytt inn í lögin er hliðstætt ákvæði til bráðabirgða nr. 15 sem er fyrir í lögunum og hv. þingmenn þekkja mætavel. Það var á sínum tíma samþykkt á hinu háa Alþingi vegna þess að með því vildu menn skapa störf og einnig draga úr undanskoti gagnvart skatti. Það ákvæði, ákvæði 15, felur sem sagt í sér heimild til endurgreiðslna vegna vinnu við viðhald og endurbyggingu íbúðarhúsnæðis og sumarbústaða.

Á sínum tíma var þetta sett í kjölfar bankahrunsins þegar uppi var mjög erfið og þröng staða á vinnumarkaði. Atvinnuleysi sleikti þá 10% og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði nýverið spáð því að það gæti farið upp í 14%. Þetta var eitt af þeim ráðum sem gripið var til á sínum tíma og skilaði ákaflega góðum árangri, þessi aðgerð skapaði þúsundir ársverka. Sú játning skal hér gerð hreinskilnislega af þeim sem þetta mál flytur að ég á sínum tíma freistaði þess að láta endurgreiðsluna líka ná yfir kirkjur og endurbætur og viðhald á kirkjum en það gekk ekki. Menn hafa ekki alltaf sigur í öllum slögum jafnvel þótt þeir hafi Frelsarann með sér í liðinu. Markmiðið með þessu var, eins og ég sagði, að auka starfsemi á byggingarmarkaði, sporna við svartri atvinnustarfsemi og í kjölfarið á þessu var einmitt hleypt af stokkunum sérstöku átaki, Allir vinna, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Markmið þess var auðvitað að skapa störf og fá menn til að hefja framkvæmdir við viðhald húsnæðis. Það verður að segjast alveg eins og er að það var myljandi árangur af þessari lagasetningu og lá við stundum þegar maður kom í einstök byggðarlög á landsbyggðinni að þar mætti sjá stillansa við annað hvert hús. Fjölmargir nýttu sér þetta sem sagt.

Ekki síst skapaði þetta á þeim tíma mikilvæg störf við mannvirkjagerð sem þá lá á hnjánum eftir hrunið. Það var ákaflega mikilvæg viðbót fyrir iðnaðarmenn sérstaklega. Vegna þess hversu vel menn mátu árangur þessa ákvæðis hefur gildistími þess verið framlengdur ítrekað og endurgreiðsluheimildin er núna búin að vera í gildi um næstum því fimm ára skeið, hún hefur verið framlengd á hverju ári.

Við vitum það að sársaukafullur niðurskurður í kjölfar bankahrunsins leiddi til þess að það þurfti að grípa til aðhaldsaðgerða á öllum sviðum samfélagsins og þjóðkirkjan og söfnuður fór ekkert varhluta af því. Á síðasta kjörtímabili hrærði sú staða hjarta þáverandi innanríkisráðherra til að setja á laggir nefnd til að meta áhrif niðurskurðarins á kirkjuna. Nefndin vann hratt og vel, skilaði skýrslu sem kom út 2012 og þar kom glöggt fram að niðurskurðurinn hefur leitt til þess að endurbygging og viðhald kirkna hefur setið á hakanum og það má á grundvelli þeirrar skýrslu leiða líkur að því að sú staða sé giska alvarleg, enda ljóst að undir slíkum kringumstæðum skapast oft hætta á því að verulega mikilvæg verðmæti eyðileggist. Tilgangur frumvarpsins er ekki síst að koma í veg fyrir það með því að ýta undir að ráðist verði í viðhald slíkra bygginga og nauðsynlega endurgerð.

Ég tek það þó fram að eftir að þetta frumvarp kom fram, sem ég vil geta að hlaut ákaflega góðar undirtektir á nýlegu kirkjuþingi, hafa ýmsir starfsmenn þjóðkirkjunnar, m.a. prestar, komið að máli við okkur flutningsmenn og bent á að það væri vel við hæfi að nefndin sem um þetta fjallar skoði hvort ekki sé rétt að setja fasta innanstokksmuni eins og t.d. orgel líka undir gildissvið þessa frumvarps ef að lögum verður. Ég tel að það sé ákaflega þörf ábending sem ég hef reyndar farið yfir með flutningsmönnum og við leggjum saman til þrír að þegar þessari umræðu slotar verði þetta mál sent til efnahagsnefndar þingsins og hún taki þessa ábendingu sérstaklega til umfjöllunar og skoðunar.