144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

endurupptaka vegna látinna dómþola í máli Hæstaréttar nr. 214/1978.

368. mál
[14:26]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um heimild til endurupptöku vegna látinna dómþola í máli Hæstaréttar nr. 214/1978. Þar er um að ræða svokallað Guðmundar- og Geirfinnsmál. Í því máli voru sex einstaklingar sakfelldir fyrir að hafa átt þátt í hvarfi Guðmundar Einarssonar og/eða Geirfinns Einarssonar.

Að frumvarpinu standa auk mín hv. þingmenn Brynjar Níelsson, Birgitta Jónsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Karl Garðarsson, Valgerður Bjarnadóttir, Sigrún Magnúsdóttir, Helgi Hjörvar, Pétur H. Blöndal og Willum Þór Þórsson. Allir eiga þessir hv. þingmenn sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og standa þeir allir að flutningi málsins þótt nefndin geri það ekki sem slík.

Hæstv. forseti. Allt frá dómsuppkvaðningu í umræddu máli hefur sjónarmiðum þess eðlis að margt hafi farið alvarlega úrskeiðis við rannsókn málsins ítrekað verið haldið á lofti enda er það útbreidd skoðun í þjóðfélaginu að réttarkerfið hafi brugðist í málinu.

Hinn 7. október árið 2011 skipaði þáverandi innanríkisráðherra, sá sem hér stendur, sérstakan starfshóp sem var falið að fara yfir Guðmundar- og Geirfinnsmálið í heild sinni, en sérstaklega þá þætti sem lutu að rannsókn málsins og framkvæmd hennar. Starfshópnum var jafnframt falið að taka til athugunar þau gögn sem komið höfðu fram á síðustu árum.

Hinn 21. mars 2013 skilaði starfshópurinn skýrslu með niðurstöðum sínum til innanríkisráðherra. Starfshópurinn komst m.a. að þeirri niðurstöðu að rannsókn málsins hafi verið haldin ýmsum göllum. Í skýrslu sinni slær starfshópurinn því föstu að yfirheyrslur og viðtöl rannsóknarlögreglu við sakborninga hafi verið margfalt fleiri en þau gögn sem lögð voru fyrir dóm gáfu til kynna og sakborningum hafi ekki verið kynnt réttarstaða sín með fullnægjandi hætti. Í skýrslunni tiltekur starfshópurinn að yfirheyrslur hafi oft staðið samfellt lengur en lögmætt var og verulegir misbrestir hafi verið á skráningu þeirra, að réttur dómfelldra til að njóta lögfræðilegrar aðstoðar hafi verið fyrir borð borinn oftar en dómstólar höfðu ástæðu til að ætla og sætt óeðlilegum takmörkunum og að fangelsisverðir hafi framkvæmt yfirheyrslur þrátt fyrir að hafa ekki heimildir til þess að lögum. Þá kemur fram í skýrslu starfshópsins að framburður sakborninga hafi borist á milli þeirra er þeir voru í einangrun meðan á rannsókn málsins stóð. Eru hér aðeins tilgreindar nokkrar aðfinnslur af mörgum er varða rannsókn og málsmeðferð framangreinds máls. Til viðbótar skýrslu starfshópsins var framkvæmt ítarlegt sálfræðimat á áreiðanleika framburðar dómfelldu í málinu. Niðurstaða sálfræðimatsins var að hafið væri yfir allan skynsamlegan vafa að játningar dómþola í málinu hefðu verið ýmist falskar eða ótrúverðugar.

Rétt er að geta þess að skoðun starfshópsins náði jafnt til allra hinna sex dómfelldu einstaklinga sem sakfelldir voru fyrir þátt í hvarfi Guðmundar Einarssonar og/eða Geirfinns Einarssonar. Niðurstöður í skýrslu starfshópsins voru, líkt og að framan getur, afdráttarlausar og fólu í sér ákveðinn áfellisdóm á íslenskt réttarkerfi.

Samkvæmt skipunarbréfi starfshópsins var það eitt af hlutverkum hans að greina í skýrslu sinni til innanríkisráðherra hvort og þá til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa varðandi framhald málsins. Um þetta atriði segir svo í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Einkum í ljósi þeirrar afdráttarlausu niðurstöðu að framburði dómfelldu í svokölluðu Guðmundar- og Geirfinnsmálum, hæstaréttarmáli nr. 214/1978, hafi verið óáreiðanlegir telur hópurinn veigamiklar ástæður til að málið verði tekið upp á ný.“

Í kjölfarið er að finna umfjöllun um færar leiðir, m.a. um sértæka lagabreytingu. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Ekki þarf að hafa um það mörg orð að Guðmundar- og Geirfinnsmál eru einhver sérstæðustu sakamál sem komið hafa til kasta íslenskra dómstóla. [...] Með tilliti til þeirrar þekkingar sem nú liggur fyrir um óáreiðanlega framburði og falskar játningar og þeirrar afdráttarlausu niðurstöðu sem nú liggur fyrir í skýrslu þessari um framburði dómfelldu í Guðmundar- og Geirfinnsmálum telur starfshópurinn það koma til álita að lagt verði fram lagafrumvarp sem mælir fyrir um endurupptöku málanna.“

Þá er í skýrslunni að finna umfjöllun um ráðstafanir á grundvelli gildandi lagaákvæða en þar kemur fram að starfshópurinn telji að samkvæmt þeim íslensku lögum sem nú eru í gildi sé ekki unnt að beiðast endurupptöku dæmdra sakamála fyrir hönd látinna manna, en það liggur fyrir að tveir af dómþolunum sex eru nú látnir, þeir Sævar Marinó Ciesielski og Tryggvi Rúnar Leifsson.

Í lokaorðum skýrslu starfshópsins er sérstaklega vísað til þess að mikilvægt sé að almennt traust ríki til lögreglunnar, ákæruvaldsins og réttarkerfisins í heild. Er ljóst að slíkt traust er grundvallarforsenda þess að almenningur geti borið virðingu fyrir réttarríkinu og þeim grundvallarsjónarmiðum er liggja því að baki. Þessi sjónarmið voru grundvallarsjónarmið að baki þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um meðferð sakamála með lögum nr. 15/2013.

Að teknu tilliti til framangreinds og niðurstöðu skýrslu starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmál er það mat löggjafans að nauðsynlegt sé að traust og tiltrú á réttarkerfið verði styrkt með þeim hætti að aðganga nákominna skyldmenna látinna dómþola í þessu sérstæða máli verði heimiluð að öðrum almennum skilyrðum fullnægðum. Þannig er opnað fyrir þann möguleika, ef tilefni er til endurupptöku samkvæmt almennum skilyrðum laga, að Guðmundar- og Geirfinnsmálið geti sætt endurupptöku gagnvart öllum hinum dómfelldu, hvort heldur sem þeir eru lífs eða liðnir, og þar með heildarendurskoðun.

Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að réttur til að leggja fram beiðni um endurupptöku liggi hjá nánar tilgreindum nákomnum skyldmennum hinna látnu dómþola. (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti vill spyrja hvort langt sé eftir af ræðu hv. þingmanns þar sem ætlunin var að hefja umræðu um skuldaleiðréttinguna nú um kl. hálf þrjú.)

Hann mun ljúka ræðu sinni innan hálfrar mínútu.

Stafar þessi afmörkun fyrst og fremst af því að umræddir aðilar eru almennt þeir sem hafa ríkra hagsmuna að gæta af því að fá mannorð og æru hins látna hreinsaða.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að málið gangi til allsherjar- og menntamálanefndar til umfjöllunar.