144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[14:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Við erum hér tekin aftur til við umræðu sem hófst í gær og gert var hlé á vegna einhvers sem forseti kallaði aðkallandi fund sem forsætisráðherra þurfti að sækja í gær. Forsætisráðherra er nú í þinghúsinu og ég spyr enn og aftur, og tek undir spurningu hv. þm. Helga Hjörvars: Hvaða fundur var það sem hæstv. forsætisráðherra mat svo mikilvægan að hann væri mikilvægari en fundurinn með Alþingi Íslendinga? Fundurinn með forustu ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambandsins hófst í gær kl. 17, enda var fjármálaráðherra hér í þingsal þangað til.

Forsætisráðherra skuldar þinginu skýringar á því að hér ber upplýsingum ekki saman og er mikilvægt að við fáum úr því skorið þannig að við séum klár á því að forsætisráðherra er hér í umboði þingsins.