144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[14:58]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta tíma minn hér til að ræða um skuldaleiðréttinguna, ekki um allt mögulegt annað eins og ýmsir þingmenn kjósa að gera. Skuldaleiðréttingin er almenn efnahagsaðgerð sem í stuttu máli felst í því að skattur er lagður á fjármálafyrirtæki sem er síðan notaður til að leiðrétta verðtryggð íbúðalán. Þótt efnahagslegu rökin fyrir aðgerðinni séu sterk vega rök um réttlæti, sanngirni og jafnræði líka þungt og hafa afgerandi áhrif á framkvæmdina og aðferðafræðina við framkvæmdina.

Ég sá aldrei fyrir mér krónur og aura eða tilteknar upphæðir heldur markmið og rök þegar verið var að undirbúa þessa aðgerð. Í mínum huga eru efnahagsleg áhrif aðgerðanna svona mikilvæg af því að framkvæmd leiðréttingarinnar er sú fyrsta af mörgum verkefnum sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vinnur að til að endurreisa hagkerfið þar sem heimilin eru undirstöðueiningarnar. Þannig er þessi aðgerð ein af undirstöðunum fyrir þá uppbyggingu sem brýn er á næstu árum í heilbrigðiskerfinu, í endurskipulagningu húsnæðiskerfisins, í endurbótum á menntakerfinu, við undirbyggingu á rannsóknum og á mörgum öðrum sviðum.

Við framkvæmd leiðréttingarinnar er ég sérstaklega ánægð með að í henni felst jöfnun milli tekjuhópa, þ.e. að í raun verður tilfærsla frá tekjuhærri hópum til þeirra tekjulægri þvert á það sem haldið hefur verið fram úr þessum ræðustóli og að eftir framkvæmdina fjölgar þeim einstaklingum sem eiga meira en þeir skulda í sínu húsnæði, þeim einstaklingum fjölgar um fjögur þúsund. Þótt efnahagsáhrifin séu mikilvæg skiptir líka máli hvernig aðgerðin kemur út fyrir heimilin og í umræðunni hefur verið einblínt á áhrif leiðréttingarinnar á mánaðarlegar afborganir en minna hefur verið fjallað um langtímaáhrif á lækkun höfuðstólsins á fjárhag heimila. Heildargreiðslur heimilis af láni yfir lánstímann skipta ekki síður máli en greiðslubyrði á mánuði. Leiðréttingin getur lækkað heildargreiðslur af fasteignaláninu á lánstímanum um margar milljónir vegna minni áhrifa vaxtavaxta út lánstímann.

Það hleðst minna á lánið af vöxtum og verðbótum. Þótt mánaðarlegar greiðslur lækki bara um nokkur þúsund geta heildargreiðslurnar lækkað um nokkrar milljónir. Mest lækkun verður á heildargreiðslunum á nýlegu lánunum, þeim sem voru tekin rétt fyrir hrun, enda er lengri tími eftir af endurgreiðslum þar og því meiri vextir og verðbætur sem eiga eftir að bætast við og ættu eftir að bætast við þann hluta sem leiðréttur er. Ef verðbólga fer upp á við á lánstímanum verður þessi lækkun heildargreiðslna enn meiri í krónum talið yfir tímabilið. Það sama á við ef leiðréttingunni eða hluta hennar er ráðstafað inn á þann hluta lánsins sem stendur á greiðslujöfnunarreikningi. Þá hefur leiðréttingin ekki áhrif á mánaðarlegu greiðslubyrðina en veruleg áhrif til lækkunar á heildargreiðslu af láninu.

Höfuðstóll lána lækkar um allt að 20% hjá þeim heimilum sem fá leiðréttingar og nýta sér innborgun séreignarsparnaðar að fullu, hlutfallslega mest af elstu lánunum en minna af þeim nýrri. Á móti kemur hins vegar að lækkunin hefur áhrif í lengri tíma af nýrri lánunum og heildargreiðslur lækka meira hjá þeim sem eru með þau.

Mig langaði svo aðeins að gera að umræðuefni að meðallækkun mánaðarlegra afborgana er kannski um 8 þúsund, eða því var haldið fram hér í gær. 8 þúsund verða 100 þúsund á einu ári, 1 milljón á tíu árum. Við þetta ættu svo eftir að bætast vextir og verðbætur sem skipta auðvitað verulegu máli í öllu samhengi.