144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[15:09]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst dálítið sérkennilegt í þessari umræðu sem við höfum verið að fylgjast með hér að Framsóknarflokkurinn sendir út einstaklinga sem eru svona „good cops“ og svo senda þeir út „bad cops“ sem eiga aldeilis að tækla niður talsmenn þeirra sem ekki eru fylgjandi þessum aðgerðum. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég heyrði vel hvað hv. þingmaður sagði og hafi hann engar áhyggjur því að ég mun örugglega koma inn á eitthvað af því. Hann þarf ekkert að minna mig á það héðan úr hliðarsölum.

Það sem ég vil byrja á að nefna hér er það að þegar menn fara fram með svona stórar aðgerðir þá undrast ég mjög að þeir geti ekki að meiri hluta til í sinni umræðu bara talað fyrir sínum aðgerðum. Fyrsta daginn sem þetta var kynnt þá var ég engu nær en ég var hins vegar mjög vel meðvituð um það hvert peningarnir fóru sem voru að baki 110%-leiðinni. Einhverra hluta vegna ákváðu menn að tillögur þeirra væru ekki brattari en svo að þær þyrfti að réttlæta með því að tala um aðgerðir fyrri ríkisstjórnar.

Ég ætla hins vegar að segja það hér að það er margt ágætt í þessum aðgerðum og ég mun fara yfir það hér á eftir. En ég vil fyrst segja að þegar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason og fleiri hafa talað hér um að við höfum viljandi ekki skattlagt þrotabúin þá vita allir sanngjarnir menn að andlag þeirrar skattlagningar lá ekki fyrir fyrr en á árinu 2013. Eftir að það lá fyrir var skattlagningarvaldið í höndum núverandi ríkisstjórnar. Það voru kosningar, munið þið, vorið 2013, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er gjörn á að minna okkur á. Það var einfaldlega þannig. Þetta vita allir sanngjarnir menn en svo er aftur á móti mismunandi hversu sanngjarnir menn vilja vera í umræðunni.

Annað sem ég vil líka nefna er þessi sífellda umræða um það að hinir tekjuhæstu hafi fengið mest út úr 110%-leiðinni. Þeir sem eru sanngjarnir í umræðunni mundu líka láta það fylgja að megnið af niðurfærslu sem kom til vegna þeirrar leiðar var greitt af fjármálastofnunum. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór ágætlega yfir það hér í gær. Aftur í þessu tilfelli er það bara þannig að þeir sem vilja vera sanngjarnir eru það en hinir eru það bara ekki og tala þá í hálfkveðnum vísum, segja fyrri hlutann af setningunni en sleppa þeim seinni.

Ég ætla eftir fremsta megni að reyna að vera ekki þar. Ég ætla að segja ykkur það hér, eins og ég hef sagt áður, að það er margt ágætt í þessum aðgerðum. Það sem er gott í þessum aðgerðum er það að þær ná til þeirra hópa sem sannarlega urðu eftir í þeim aðgerðum sem fyrri ríkisstjórn réðst í. Þessar tillögur byggjast sannarlega á þeim aðgerðum sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili enda eru fyrri aðgerðir dregnar frá núverandi aðgerðum þannig að þetta er gott framhald að því leyti. Þarna eru hópar eins og þeir sem eru hjá Íbúðalánasjóði, ekki var gengið nægjanlega langt gagnvart þeim á síðasta kjörtímabili. Það vissum við og það sögðum við. Það sama á við um þá sem eru með lánsveð, þeir sátu óbættir hjá garði og ég skal vera fyrst til að segja það. Það höfum við ætíð sagt líka, það þarf ekkert að fara yfir það.

Þeir sem vilja vera sanngjarnir vita líka að við settum töluverða fjármuni á síðasta kjörtímabili í vaxtabætur. Vaxtabætur á árinu 2009 til og með ársins 2012 á verðlagi dagsins í dag voru 56 milljarðar sem fóru beinustu leið til heimilanna. Hvað eru vaxtabætur? Vaxtabætur eru ekkert annað en uppbót fyrir heimilin vegna vaxtabyrði lána þeirra, 56 milljarðar fóru á fjórum árum til heimilanna í vaxtabætur. Þessu vilja menn ekki heldur halda mikið hér á lofti. Í staðinn eru menn að breyta kerfinu þannig að verið er að láta fjármuni til fólks sem þarf ekki á þeim að halda. Margt af því hefur stigið fram og við vitum þetta, þetta er líka í glærunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur kynnt. Það er verið að minnka vaxtabæturnar og vaxtabótakerfið miðar beint á þá sem eru með þyngsta byrði, eru að greiða mesta vexti. Hverjir eru það? Jú, það eru þeir sem eru hlutfallslega með hæstu lánin og þá eru það þeir sem eru tiltölulega nýlega búnir að kaupa sér húsnæði því að eftir því sem fjær dregur því minna greiða menn af vöxtum.

Þegar við erum að gagnrýna þessar aðgerðir þá byggir það fyrst og fremst á því hvernig menn eru að fara með almannafé af því að hér er fyrst og fremst um það að ræða að verið er að útdeila almannafé. Það er ekki verið að útdeila einhverjum nýjum potti. Í kynningunni fyrir nokkrum dögum var beinlínis sagt að ekki væri hægt að halda því fram að menn væru ekki að deila út almannafé, vegna þess að það sé það mikill afgangur af ríkissjóði á þessu ári þá eigi að flýta aðgerðunum. Það á sem sagt að nota það sem eftir er af skatti almennings á þessu ári til að flýta aðgerðunum. Með öðrum orðum fara 20 milljarðar af auknum skatttekjum á þessu ári, úr allt öðru en skattlagningu þrotabúa — ókey, verum sanngjörn með það. Tökum öll ef-in í burtu og segjum að fyrri hugmyndir hafi byggt á því að menn gætu náð þessum fjármunum út úr þrotabúunum.

Það sem menn eru hins vegar að gera núna er allt annað. Það er verið að nota umframskatttekjur í skuldaniðurfellingar. Ég er sérdeilis hissa á því að menn séu tilbúnir til að gera það á þennan hátt, að segja bara hér í ræðustól — það er alveg rétt sem hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir sagði áðan í ágætri ræðu að það væri rétt að það væru heimili að fá leiðréttingu sem væru í tekjulægstu hópunum. En þó að það sé gagnrýnt að fólk í tekjuhæstu hópunum sé að fá þetta erum við ekki þar með að segja að það sé vont að tekjulægstu hóparnir fái þetta. En það er gagnrýnisvert að tekjuhæstu hóparnir séu að fá þessa niðurgreiðslu. Það er gagnrýnisvert og það eru töluverðar fjárhæðir sem fara þangað sem þær gagnast ekki. Sá er fórnarkostnaður þessarar aðgerðar og fórnarkostnaðinum vil ég mótmæla harðlega. Fórnarkostnaðinn hefði mátt minnka með því að miða þessum aðgerðum þangað sem þeirra er raunverulega þörf. Þær kríteríur eru til. Það var boðið upp á það hér þegar lögin voru samþykkt, það var boðið upp á það að undanskilja tekjuhæsta hópinn. En vildu menn það? Nei, því var hafnað.

Það er þetta sem við erum að gagnrýna þegar við gagnrýnum þessar tillögur og það er ekki þannig að þetta sé einhver sérstakur sjóður sem bara sanntrúaðir eða framsóknarmenn mega sækja um í. Það er ekki þannig. Þetta er almannafé. Þarna liggur munurinn á því hvernig við hefðum viljað gera þetta og hvernig þessi ríkisstjórn gerir þetta í raun. Munurinn felst í því hvernig við viljum útdeila almannafé. Á meðan erum við í vandræðum í heilbrigðiskerfinu, á meðan horfum við upp á sjúkrahúsið okkar, Landspítala – háskólasjúkrahús, grotna niður, því miður. Sem betur fer er lifandi starfsemi þar inni en húsið er hætt að fullnægja þörfum nútímaheilbrigðisþjónustu. Þetta hefðu menn getað notað, umframskattinn sem kom eða tekjurnar í ríkissjóði sem komu á þessu ári, í svona verkefni, bæta menntaskólana, bæta laun kennara, bæta laun lækna, hefja byggingu nýs landspítala.

En menn ákváðu í staðinn, og um það snýst málið — það er meðvituð ákvörðun — að ráðstafa skattfé á þessu ári til tekjuhæstu einstaklinganna hér á landi. Það er bara meðvituð ákvörðun og ég skil ekki hvers vegna þeir sem það gera geta ekki bara staðið kokhraustir með þeirri ákvörðun í staðinn fyrir að standa hér í sífelldri vörn uppi í pontu og fara með ósannindi. Það bara skil ég ekki. Og mig vantar, og ég vil bara biðja um það að lokum, virðulegi forseti, að hæstv. forsætisráðherra segi mér það hér á eftir, og okkur sem hér erum, hvers vegna það var svona ómögulegt að reyna að minnka fórnarkostnaðinn, sem af þessari aðgerð hlýst, og hvers vegna það skipti hann og þessa ríkisstjórn og þingmenn stjórnarflokkanna svona miklu máli að aðgerðin næði til hinna efnamestu á Íslandi. Þeir höfðu val um annað og kusu að láta aðgerðina líka ná til þessara aðila. Og það var kosið að láta þessa aðgerð ná til þeirra sem þegar hafa fengið leiðréttingu með öðrum hætti sem hér hefur verið ágætlega farið yfir. Þetta er allt val.

Ég vona að við fáum einhver skýrari svör við því hér í umræðunni á eftir.