144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[15:42]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Á sumarþingi 2013 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna. Tillagan var í tíu liðum og leiðréttingin er aðeins einn liður af tíu. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa barist fyrir því í sex ár, eða allt frá hruni, að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt. Sumir þingmenn Samfylkingarinnar töluðu á sömu nótum á þeim tíma. Þessir ágætu þingmenn Samfylkingarinnar náðu því miður ekki samhljómi með öðrum þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna og urðu að láta í minni pokann. Skuldir fyrirtækja voru afskrifaðar um milljarða og fólk með gengistryggð lán fékk leiðréttingu. Eftir sat fólkið með verðtryggðu lánin, það fékk ekki neitt.

110%-leiðin var ekki jafnræðisaðgerð: Heildarniðurfærsla verðtryggðra húsnæðisskulda um 45 milljarða, þar af fóru 20 milljarðar til 1% heimila. Aðgerðin nýttist aðeins 10% heimila með verðtryggðar húsnæðisskuldir og skipting fjármuna var mjög ójöfn. Lán voru lækkuð að meðaltali um 14,4 millj. kr. á mann. Dæmi eru um 100 millj. kr. niðurfellingu skulda. Var það sanngjarnt? Nei, það var ekki sanngjarnt.

Svo ég sýni nú sanngirni í málflutningi mínum þá tel ég að fyrri ríkisstjórn hafi verið velviljuð. Fólkið sem þá var við völd taldi sig eflaust vera að gera rétt, en síðan kom bara á daginn að aðgerðirnar komu aðeins mjög afmörkuðum hópi að gagni, því miður. Ég gef mér það sem sagt að fólk sé almennt velviljað. Þess vegna er mér fyrirmunað að skilja hvers vegna sama fólk talar nú niður skuldaleiðréttinguna. Mér finnst að fólk ætti að viðurkenna að það reyndi sitt besta, það var bara ekki nóg. En nú hafa verið kynntar aðgerðir sem koma munu mun fleiri heimilum til góða. Þær eru sanngjarnar, almennar og hafa mjög jákvæð efnahagsleg áhrif.

Andstætt 110%-leiðinni er skuldaleiðréttingin almenn aðgerð. Heildarumgjörð leiðréttingarinnar er 150 milljarðar kr. Leiðréttingin skiptist í tvær aðgerðir, þ.e. 80 milljarða kr. leiðréttingu og 70 milljarðar kr. fara í skattleysi séreignarsparnaðar við inngreiðslu á höfuðstól lána, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal fagnaði mjög í ræðu sinni áðan. Ég tek undir það. Sú leið kemur t.d. ungu fólki til góða sem og leigjendum sem vilja leggja fyrir og eignast húsnæði.

Stjórnarandstaðan talar jafnvel um að verið sé að gefa ríku fólki peninga. Það er bara alrangt. Ólíkt aðgerðum fyrri ríkisstjórnar fara 75% leiðréttingarinnar til heimila sem eru með meðaltekjur eða lágar tekjur. Hámark leiðréttingarinnar á heimili eru 4 milljónir. Niðurstaðan er sú að um sanngjarna aðgerð er að ræða sem kemur flestum heimilum til góða — ég ítreka; einnig leigjendum og ungu fólki. Bent hefur verið á að ef þessi leiðrétting kæmi ekki til nú yrði hækkun höfuðstóls enn meiri vegna verðbólgunnar.

Skuldaleiðréttingin er einn liður af mörgum í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að leysa skuldavanda heimilanna þar sem heimilin eru undirstaða alls. Sérfræðingar eru sammála um að aðgerðin mun hafa jákvæð efnahagsleg áhrif og verði ekki þensluhvetjandi, sem er mjög mikilvægt atriði. Samhliða er unnið að því að lækka skuldir ríkissjóðs og afnema gjaldeyrishöftin. Þegar við náum að reisa við efnahag landsins getum við styrkt innviðina sem við erum öll sammála um að standa beri vörð um, þ.e. menntakerfið, heilbrigðiskerfið, samgöngumannvirki og fleira.

Herra forseti. Mig langar til að segja frá útvarpsviðtali sem ég heyrði í morgun á leiðinni í vinnuna. Það var viðtal við útibússtjóra Íslandsbanka í Mjóddinni. Hún sagði frá því að fjöldi fólks væri búinn að koma í útibúið núna síðustu daga til að fá rafræn skilríki og flestir í þeim tilgangi að fá staðfesta leiðréttinguna þegar sá tími kæmi. Þáttastjórnandi spurði konuna hvernig viðtökur fólks væru við skuldaleiðréttingunni og hver umræðan væri í bankanum sem hún stýrði. „Frábærar, almennt er mjög mikil ánægja og fólk deilir gleði sinni með starfsmönnum útibúsins“, svaraði hún. Mér finnst það frábært, það er gaman að heyra svona sögur.

Herra forseti. Menn tala um forgangsröðun. Það sem þessi ríkisstjórn er að gera nú er hárrétt forgangsröðun. Við verðum að byrja á byrjuninni og það er að hlúa að heimilunum. Uppskeran mun koma okkur öllum til góða. Mér finnst að við getum öll glaðst yfir því.