144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:07]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Um hvað snúast stjórnmál? Hugsjónir, staðfesta, efndir — það eru orð sem eru mér efst í huga í umræðunni um þetta stóra hagsmunamál heimilanna, skuldaleiðréttinguna vegna þess að bæði í lífi og starfi er nauðsynlegt að hafa skýr markmið. Markmiðunum má líkja við vegalagningu. Oft koma upp ýmsar hindranir við slíka aðgerð en það er alltaf vitað hvar hún á að enda. Þetta á við um þá vegferð hugsjóna okkar að leiðrétta skuldastöðu íslenskra heimila sem urðu fyrir miklu áfalli.

Skoðum árið 2009. Skoðum samfélagið. Þúsundum saman hrópaði fólk á hjálp, hrópaði á hjálp við að bjarga húsnæði sínu þannig að það yrði ekki að fara á götuna. Þetta var veruleikinn þá. Við skulum minnast þess. Enda er þak yfir höfuðið eitt af grunnþörfum okkar.

Staðfesta er lofsverður eiginleiki. Hann er ekki síst lofsverður þegar hann er til staðar til að koma hugsjónum á framfæri. Með staðfestu og eljusemi voru fundnar leiðir til að ná lokamarkinu. Strax eftir hrunið lagði Framsóknarflokkurinn til að fasteignalán yrðu lækkuð um 20% en það var skotið í kaf af þáverandi ríkisstjórn. Nú nærri sex árum seinna hefur leiðrétting og skattfrelsi innborgunar á séreignarlífeyrissparnaði gefið heimilunum möguleika á 20% lækkun húsnæðisskulda. Stjórnarflokkarnir lofuðu báðir fyrir síðustu kosningar að styrkja heimilin. Þjóðin studdi þær hugmyndir eindregið. Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn unnu stórsigur þegar stefnuleysi hinna flokkanna beið afhroð.

Nú hafa stjórnarflokkarnir uppfyllt þessi meginkosningaloforð rækilega og höfustóll íbúðalána lækkað um 150 milljarða. Að hnýta saman höfuðstólsleiðréttingu og nýtingu séreignarsparnaðar er stórsnjöll hugmyndafræði og lækkar greiðslubyrði fjölskyldunni í hag og losar um mánaðarlegar ráðstöfunartekjur.

Hugum aðeins betur að þessari leið því ríkisstjórnin setur þarna einnig fram nýja hugsun í húsnæðismálum um að þeir sem ekki eru með fasteignalán geti einnig nýtt sér þetta úrræði, séreignarsparnaðinn, til þess að spara fyrir íbúðarhúsnæði, t.d. fólk sem núna er á leigumarkaði og/eða ungt fólk til kaupa á sinni fyrstu íbúð.

Um 100 þús. manns sóttu um leiðréttingu og langflestir hafa fengið jákvæð svör. Í þessu sambandi langar mig að þakka ríkisskattstjóra og starfsfólki hans sem að mínu mati hefur unnið þrekvirki við að láta þetta allt ganga upp. Hugsa sér, 62 þús. heimsóknir voru á vefinn í gær og allt gekk upp.

Menn vilja meina að hér sé ekki um almenna aðgerð að ræða. Ef við berum þetta saman við 110%-leiðina svokölluðu þá er svo merkilegt að þar var meðalafskrift þess fólks um 14 millj. kr. Það var verið að leiðrétta hjá þeim sem áttu virkilega peninginn. En núna fær enginn meira en 4 milljónir. Þetta er jöfnunaraðgerð. Þetta er sannkölluð almenn aðgerð vegna þess að dreifing og lækkun skulda kemur fyrst og fremst fram hjá fólki sem er með meðaltekjur og lágar tekjur.

Kannski eru mestu gleðitíðindin þau að 4 þús. heimili skuli fara úr neikvæðri eiginfjárstöðu í jákvæða. Það gleður mig. En þrátt fyrir að um 100 þús. manns hafi óskað leiðréttingar og þannig lýst vilja sínum um að þessi leið ríkisstjórnarinnar verði farin, lætur stjórnarandstaðan öllum illum látum og finnur leiðréttingunni allt til foráttu.

Að mínu mati eru hugsjónir, staðfesta og efndir lykilorð í stjórnmálum, lykilorð sem allir eiga að geta tekið undir og glaðst þegar allt þetta þrennt gengur upp. Og ríkisstjórnin hefur sýnt að hún starfar eftir þeim lykilorðum. Eitt verkefnið tekur við þegar öðru lýkur. Ótal verkefni bíða. Ég nefni húsnæðismál og heilbrigðismál, svo eitthvað sé nefnt.