144. löggjafarþing — 32. fundur,  13. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að fá að taka þátt í þessari mikilvægu umræðu. Mig langar að byrja á því að óska ríkisstjórnarflokkunum og stuðningsmönnum þessara aðgerða til hamingju með að vera búin að koma þeim í framkvæmd. Það er ánægjulegt að fá að heyra og sjá þau viðbrögð úti í samfélaginu að fagnað er í flestum tilfellum þessum aðgerðum.

Hér í þessum sal hefur auðvitað margoft verið rætt um skuldavanda heimilanna. Á síðasta kjörtímabili ræddum við ótal sinnum í ræðustól um þetta stóra og mikilvæga verkefni. Þá var ég í stjórnarandstöðu. Þá töluðu þingmenn, sem hér hafa talað, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar úr stjórnarliðinu ásamt Össuri Skarphéðinssyni sem þá var ráðherra og fleiri ágætir þingmenn. Við töluðum oft um að ekki væri nóg að gert. Við töluðum oft um þær aðgerðir sem þáverandi ríkisstjórn fór í, sem við í Sjálfstæðisflokknum studdum í flestum tilfellum. Við hjálpuðum til við að koma þeim aðgerðum í gegnum þingið vegna þess að það var þó alla vega viðleitni í þá átt að reyna að koma til móts við skuldsett heimili í landinu. En við töldum jafnframt að ekki væri nóg að gert. Undir það tóku margir stjórnarliðar, m.a. þáverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Helgi Hjörvar. Nefndin sjálf tók um það nokkra fundi og við bjuggumst við því á tímabili að nefndin legði til aðgerðir í þá átt. Það varð hins vegar ekki niðurstaðan þrátt fyrir að ýmsir skrifuðu lærðar greinar um að það ætti að gera og væru með ýmsar yfirlýsingar í ræðustól.

Það er rétt að vitna hér jafnframt í hv. þm. Guðmund Steingrímsson, sem hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir vitnaði til áðan, og ræðu hans frá því að hann var í Framsóknarflokknum, ef mig brestur ekki minni. Hann fór um það fögrum orðum að rétt væri að leggja fram tillögur til að létta byrðum af almenningi í gegnum skuldirnar, að reyna að lækka skuldabyrðina. Hvernig var það gert, hv. þingmaður? Með hvaða hætti var það gert? Af hverju hefur mönnum snúist hugur? Ég hélt að við værum að nálgast þetta verkefni í sameiningu, a.m.k. gerðum við það á síðasta kjörtímabili. Við reyndum að gera það í þverpólitískri sátt. Við reyndum að gera það og það var gert. En við ræddum það hins vegar nokkurn veginn fram á síðustu viku síðasta kjörtímabils að ekki væri nóg að gert. Ég man ekki betur en að flokkarnir hafi verið með sérstakar yfirlýsingar í kosningabaráttunni um að fara ætti í hinar og þessar aðgerðir. Ég man ekki betur. Þess vegna kemur mér á óvart hversu mikil heift birtist hér í ræðustól gagnvart þessum ágætu aðgerðum. Það kemur mér á óvart, herra forseti, og mér finnst menn ekki vera að öllu leyti samkvæmir sjálfum sér.

Síðan er fjármögnun aðgerðanna. Ég tel að það sé ljóst að ýmsir hv. þingmenn, fyrrverandi stjórnarliðar, hafi haft hugmyndir um að taka þennan skatt. Það voru hins vegar engar tillögur lagðar fram um það. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur ritað um það lærðar greinar, eða a.m.k. lærða grein, að þessa leið ætti að fara. Þá spyr maður: Hvers vegna kom ekki fram þingmál, hvers vegna var ekkert gert? Var það vegna þess að ekki var samstaða um það í þáverandi stjórnarliði? Miðað við orð þingmanna í dag virðist það hafa verið niðurstaðan. Það er afskaplega einkennilegt. Mér þykir, herra forseti, menn tala hér talsvert í kross.

Þessar aðgerðir eru tvíþættar. Annars vegar leiðréttingin sjálf, niðurfærsla höfuðstóls húsnæðislána, og hins vegar séreignarsparnaðurinn sem er leið sem mun nýtast fjölmörgum, sem mun nýtast þeim sem ekki eiga húsnæði til þess að safna sér upp í innborgun. Það er mikilvægt að þetta sé komið á dagskrá, gríðarlega mikilvægt. Ég vona svo sannarlega að sem flestir sjái sér fært að fara þá leið. Það er mikilvægt að spara, það er ekki bara mikilvægt fyrir einstaklingana heldur er mikilvægt fyrir okkur öll, efnahag landsins, að sparnaður sé meiri en hann hefur verið. Það er mikilvægt að við komum fram með leið sem hvetur fólk til þess að spara, og ég vona svo sannarlega, herra forseti, að þess muni sjá stað að sparnaður aukist. Ég tel að við séum nú þegar farin að sjá fólk leggja til hliðar í auknum mæli í gegnum séreignarsparnaðarleiðina með það fyrir augum að ná að safna upp í útborgun í íbúð.

Herra forseti. Ég tel að við séum að stíga stórt skref í þá átt að ná sáttum varðandi þá sem urðu fyrir gríðarlegu áfalli og áttu fasteign við hrun. Ég tel að komið sé að þeim tímapunkti loksins, loksins. Ég tel að svo sé. Auðvitað nær þessi aðgerð ekki til þeirra sem uppfylla ekki skilyrðin. Það hefur legið fyrir allan tímann. Við töluðum um það allt síðasta kjörtímabil að það þyrftu að koma til sérstakar aðgerðir til handa þeim sem áttu fasteign. Svo láta menn eins og það komi þeim eitthvað á óvart að það sé stóra verkefnið sem er verið að tala um. Það þýðir ekki að engin önnur verkefni séu á dagskrá. Þetta er afskaplega einkennileg nálgun, herra forseti, og til þess fallin að kasta ryki í augu þeirra sem á hlýða.

Mér finnst eiginlega dapurlegast að hlusta á þann málflutning hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni og fleirum um að þetta sé bara fyrirmyndin að því sem koma skal. Nú verði þetta alltaf notað þegar eitthvað bjáti á í samfélaginu. Það hefur ítrekað verið sagt þegar frumvörpin fóru hér í gegnum þingið og urðu að lögum, og nú undir þessari umræðu af ráðherrum ríkisstjórnarinnar, að þetta er aðgerð sem kemur til út af hruninu sem er einstakt í sögu þessa lands. Og við skulum rétt vona það að við stjórnmálamenn nútímans náum að halda þannig á spilunum að þetta verði einstakt. Við hljótum öll að ætla okkur það hlutverk að stuðla að því. Ég ætla alla vega að vona það og ég trúi því að við séum öll á sama báti hvað það varðar.