144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

vinnubrögð í fjárlaganefnd.

[15:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil kveðja mér hljóðs til þess að vekja athygli forseta og kvarta undan óvönduðum vinnubrögðum meiri hlutans í fjárlaganefnd. Í morgun var fjáraukalagafrumvarpið tekið út úr nefndinni þó að þar sé stór og mikilvægur þáttur sem byggir á frumvarpi sem hafði ekki verið dreift þá og hefur ekki verið tekið hér til umræðu. Einnig hefur umsögn Ríkisendurskoðunar ekki borist eða um hana verið fjallað í nefndinni og enn er verið að kalla inn gesti til nefndarinnar. Samt sem áður tók meiri hluti nefndarinnar málið út og því vil ég, virðulegur forseti, mótmæla harðlega.