144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

vinnubrögð í fjárlaganefnd.

[15:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að lýsa því yfir að þær áhyggjur sem hér hafa komið fram hjá síðustu þremur ræðumönnum eru algerlega þarflausar. Ég hef nú þegar boðað fulltrúa frá Seðlabanka Íslands á fund fjárlaganefndar á miðvikudaginn og eins þá aðila sem um er rætt.

Á einhvern hátt virðist vera pirringur eða þreyta í stjórnarandstöðunni nú um stundir vegna þess að fjárlagavinnan gengur mjög vel.

Eins og komið hefur fram var fjáraukalagafrumvarpið tekið úr fjárlaganefnd í morgun. Þar er aðeins viðbót við þær fjárheimildir sem birtast í frumvarpinu sjálfu þannig að vinnan gengur vel. Þeir aðilar sem kvartað hefur verið yfir að hafi ekki fengið að koma fyrir fjárlaganefnd koma fyrir nefndina á miðvikudaginn.