144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

rekstrarhalli Landspítalans.

[15:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Eftir gríðarleg áföll í efnahagslífinu og mjög djúpt samdráttarskeið í íslensku efnahagslífi er blessunarlega útlit fyrir núna að efnahagslífið sé að taka við sér og að meiri tekjur komi inn í ríkissjóð og skattstofnar séu að skila meiri tekjum og það verði á þessu ári betri afkoma í ríkisrekstrinum en lagt var upp með í fjárlögum yfirstandandi árs.

Það liggur líka fyrir á sama tíma að velferðarkerfið, ekki síst heilbrigðiskerfið, þurfti að taka á sig gríðarlegar skerðingar á rekstrarfé á þeim erfiðu árum.

Mig langar að beina sjónum sérstaklega að Landspítalanum í þessari fyrirspurn þó að ræða megi örugglega margar aðrar heilbrigðisstofnanir líka, ég er alveg viss um það. En ég ætla að beina sjónum sérstaklega að Landspítalanum. Rekstur Landspítalans var skorinn inn að beini á árunm í eftirleik hrunsins. En nú er bættari afkoma í ríkisrekstrinum og útlit er fyrir meiri tekjuafgang á þessu ári. Því finnst mér liggja beinast við að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann muni ekki beita sér fyrir því og hvort það standi ekki örugglega til að rétta af halla Landspítalans í rekstri á yfirstandandi ári — ég held að hann sé eitthvað um milljarður og er af ýmsum ástæðum, mörgum ófyrirséðum — og líka að mæta fjárþörf Landspítalans miðað við berstrípaðar áætlanir fyrir næsta ár sem forstjóri spítalans hefur talað um að sé um 1,8 milljarðar.

Stendur ekki örugglega til að koma rekstri spítalans í þokkalegt horf?