144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

hækkun virðisaukaskatts á matvæli.

[15:26]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst er nú rétt að leiðrétta það að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar lýsti því ekki yfir að hann væri andvígur hækkun neðra þreps virðisaukaskatts nema kerfið yrði flækt enn þá meira, eða eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir orðaði það, nema flækjustigið yrði aukið enn frekar. Það sem hv. þingmaður sagði, eins og fjölmargir aðrir þingmenn hafa raunar bent á á síðustu missirum, var að það þyrfti að vera ljóst að þær breytingar sem ráðist yrði í, breytingar sem eru til þess ætlaðar að einfalda kerfið, mundu á endanum leiða til þess að kjör allra hópa bötnuðu. Þar horfa menn auðvitað sérstaklega til fólks með milli- og lægri tekjur. Menn vildu hafa sannfæringu fyrir því að heildaráhrifin af þessum breytingum, breytingum til einföldunar, yrðu til að bæta kjör, þ.e. að lækka verðlag í landinu — lækka verðlag, ekki hækka, lækka — og auk þess að auka ráðstöfunartekjur ekki hvað síst fólks með milli- og lægri tekjur.

Það er afstaða hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar og það er líka afstaða mín.