144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

hækkun taxta sérgreinalækna.

[15:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í ár hækkaði greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðiskerfinu um samtals 611 millj. kr. vegna komugjalda í heilsugæslu, hækkunar gjalda fyrir sérgreinalæknishjálp, rannsókna og myndgreiningar á stofum lækna og göngudeilda sjúkrahúsa, vegna lækkunar á greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum og vegna lækkunar á greiðsluþátttöku ríkisins í þjálfun.

Varðandi kostnað vegna samninga sérgreinalækna og breytingar á reglugerð um greiðsluþátttöku einstaklinga kemur það algjörlega skýrt fram í fjáraukalagafrumvarpinu að sjúklingar eigi að bera þennan kostnað á árinu 2015. Ég skil hæstv. heilbrigðisráðherra þannig að hann sé sammála því að þann rúma milljarð sem samningurinn kostar eigi sjúklingar að bera, sjúklingar eigi sem sagt ekki að hafa neinn hag af því að ríkið geri samninga við sérgreinalækna. (Forseti hringir.)

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist þessi þróun jákvæð, að greiðsluþátttaka aukist svo mikið eins og hún hefur nú þegar gert (Forseti hringir.) á árinu 2014 og verði þá enn meiri á árinu 2015.