144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[15:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, afkoma ríkissjóðs er betri á þessu ári vegna einskiptishapps sem okkur hefur hent. Í krafti þess mun verða svigrúm í ríkisbúskapnum. Það er hins vegar afskaplega óskynsamlega með farið að nýta það svigrúm í aðgerð eins og þá skuldamillifærslu, mér liggur við að segja skuldabix, sem við sjáum núna. Hún hefur margháttuð neikvæð áhrif. Hér hefur verið rakið að hún ryður út fjárfestingargetu ríkisins, opinberra aðila. Það verður minni fjárfesting en ella.

Það liggur líka fyrir að Seðlabankinn hefur metið svigrúmið í hagkerfinu fyrir launahækkanir upp á 3,5%. Það eru í grófum dráttum 35 milljarðar vegna þess að heildarlaun í landinu eru í kringum þúsund milljarðar.

Árleg innspýtingaráhrif skuldabixins eru meiri en sem nemur 35 milljörðum á ári þannig að svigrúmið til launahækkana er þar með þurrkað upp. Því blasir við að breytingar á launum fyrir venjulegt fólk verða torsóttari og erfiðara að fá.

Virðulegi forseti. Þeir sem fá í þessari skuldaniðurfærslu njóta en hinir sitja verr settir eftir en þeir voru áður. Þetta er eignatilfærsla og peningatilfærsla frá þeim lakar settu til þeirra best settu, til fólks sem er með skuldir í eigin húsnæði og þeim mun meiri sem það er með meiri skuldir.

Dapurlegustu skilaboðin fær ungt fólk sem ekki hefur enn þá náð að eignast sínu fyrstu íbúð. (Forseti hringir.) Það verður enn erfiðara því að þessi aðgerð mun spenna upp fasteignaverð, auka verðbólgu og skapa margvísleg neikvæð áhrif (Forseti hringir.) fyrir það fólk og draga úr líkunum á því að það geti fest yndi hér á landi.