144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[16:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Meðferð hægri stjórnarinnar á almannafé er óásættanleg. Vel stæðu fólki eru færðir milljarðar rétt sisvona á meðan heilbrigðis- og mennntakerfið er í vanda og aðrir innviðir samfélagsins í slæmu ástandi. Með skuldaniðurgreiðslunni færir hægri stjórnin heimilum með meira en 1 milljón og 300 þús. kr. í laun á mánuði 20 milljarða, svo dæmi sé tekið. Fyrir 20 milljarða má reka allt framhaldsskólakerfið í eitt ár og rekstur allra heilbrigðisstofnana landsins kostar 17 milljarða á ári.

Hæstv. forsætisráðherra hefur margsagt að kostnaður vegna skuldaniðurgreiðslna eigi ekki að lenda á ríkinu. Hann sagði meðal annars í viðtali 19. mars 2013, með leyfi forseta.

„Já já, við höfum nú talað mjög skýrt í því, held ég að mér sé óhætt að segja, að þessi kostnaður ætti ekki að lenda á ríkinu vegna þess að það væri framkvæmanlegt að gera það öðruvísi, það væri sanngjarnt að gera það öðruvísi og eðlilegt.“

Nú lendir hann á ríkinu og bæta á 16 milljörðum kr. í ár vegna þess að ríkissjóður stendur svo vel, og það er gott að spara 6 milljarða í vexti. Um leið og fjármunir úr ríkissjóði eru veittir til margra sem ekki þurfa á þeim að halda segja stjórnarliðar að ekki séu til peningar í heilbrigðiskerfið eða vegakerfið og boða fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum. Og þau krefjast enn aukinnar greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Þau auka með gjörðum sínum misskiptingu í landinu með margvíslegum hætti, líka með skuldaniðurgreiðslunni. Og kostnaðurinn vegna þess er miklu meiri en 6 milljarðar. Auk þess mun aðgerðin sjálf valda verðbólgu og lánin munu hækka aftur sem henni nemur. Kostnaðurinn sem þessi ómarkvissa aðgerð veldur mun ekki bara lenda á þeim sem fá niðurgreiðslu heldur á öllum, bæði fátækum og ríkum, sjúkum og frískum. Og ég undrast það að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra finnist þessi aðgerð ásættanleg.