144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[16:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er svo margt að tala um þetta mál að það kemst ekki fyrir á tveimur mínútum.

Ef þetta er réttlætismál vegna verðtryggingar eiga námsmenn líka rétt á leiðréttingu; rétt — undirstrika ég. Réttindi er ekki eitthvað sem við gefum fólki, réttur er eitthvað sem fólk hefur og við getum einungis gengið á. En ef það er réttur fólks að fá verðtryggingu leiðrétta þá hafa námsmenn líka þann rétt, það liggur í eðli þeirrar röksemdar.

Mig langar aðeins að tala um orð hæstv. fjármálaráðherra í þessu. Heyrst hefur í fjölmiðlum að hann líti ekki svo á að þessi aðgerð sé fordæmisgefandi. Ég velti fyrir mér: Hvers vegna ekki, hvers vegna er þetta ekki fordæmisgefandi? Ég held að ástæðan sé sú að Sjálfstæðisflokkurinn gæti aldrei tekið undir efnahagsaðgerð af þessu tagi nema til að tryggja samstarf við einhvern flokk eins og hv. Framsóknarflokk. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina oft talað fyrir því að horfa til framtíðar. Þegar það er eitthvað í fortíðinni sem menn vilja síður tala um þá er gott að horfa til framtíðar. Mig langar svolítið til þess að horfa til framtíðar.

Ég get lofað hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra einu og þjóðinni allri og Alþingi: Það verður annað hrun á Íslandi einn daginn. Það er engin spurning um ef, það er bara spurning um hvenær; og ekki einu sinni stór spurning, það liggur í eðli þess efnahagskerfis sem við höfum. Á meðan það er ekki lagað skulum við átta okkur á því að þegar annað hrun verður, hvort sem það er eftir 20 ár, 40 ár eða hvað, þá munum við aftur þurfa að kljást við hluti eins og verðbólguskot. Og þá verður þessi aðgerð fordæmi sama hvað núverandi hæstv. fjármálaráðherra finnst um það.

Það er óhjákvæmileg afleiðing af því bankakerfi og því peningakerfi sem við höfum í dag að þegar efnahagurinn fer fram úr hófi þá mun hann aftur leiðrétta sig, eins og það er kallað. Ekkert hefur verið gert og að því er virðist mun ekkert verða gert til að breyta þessu kerfi. Ég hef engar fullkomnar lausnir í þeim efnum, ég held ekki að neinn hafi þær. En það þýðir (Forseti hringir.) ekkert í mínum huga að láta eins og þetta sé ekki fordæmisgefandi. Þetta er það í eðli sínu.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.