144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

innflutningur á grænlensku kjöti.

200. mál
[16:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er áhugamaður um að efla tengsl Íslands og Grænlands á öllum sviðum. Grænlendingar eru núna staddir á ákaflega viðkvæmu skeiði í sjálfstæðisbaráttu sinni. Ég styð hana og tel að Alþingi eigi að styðja hana af heilum hug.

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu ásamt átta öðrum hv. þingmönnum þar sem lagt er til í 15 liðum að samstarfið verði eflt. Þar á meðal höfum við lagt það til að íslenska ríkisstjórnin beiti sér fyrir fríverslun milli Íslands og Grænlands og enn fremur að öllum viðskiptahindrunum sem eru fyrir hendi verði rutt úr vegi. Eins og við vitum eru oft ýmiss konar viðskiptahindranir, faldar eða sýnilegar, miklu erfiðari í glímunni en tollar.

Eins og kemur fram af þeirri fyrirspurn sem við ræðum nú er ég sérstakur áhugamaður um að efla þau tengsl milli Íslands og Grænlands sem felast í sameiginlegri nautn af hánorrænum matvælum. Þau er að finna ýmis á Grænlandi sérstakari en víðast annars staðar. Ég tel að út frá veðráttu og aðstæðum á Grænlandi eigi ekki að vera neinir tálmar í að flytja þar á milli landa.

Ég ætla að hlífa hæstv. ráðherra við því að spyrja hann út í afstöðu hans til þess að leyfa innflutning á „kiviat“. Hann veit efalaust, ef hann er alinn upp á svipuðu menningarheimili og ég, hvað það er af lestri bóka Peters Freuchens á sínum tíma sem fór um Norður-Grænland með Knud Rasmussen og sagði frá því að það mesta lostæti sem hægt væri að fá væri haftyrðlar kæstir í hamnum í spikuðum selsbelg. Það bíður betri tíma. En að þessu sinni ætla ég að spyrja hann um hvaða reglur og tollar gilda yfir þrjár tegundir sem má segja að allar varði okkur Íslendinga, þ.e. sauðnaut, rjúpu og hreindýr. Sauðnautin varða okkur að því leyti til að hér voru gerðar tilraunir til þess að flytja inn sauðnaut á sínum tíma til að efla matarmenningu, í síðara skiptið með sérstöku leyfi og í skjóli Alþingis. Þau sauðnaut drápust, í bókstaflegum skilningi, einnig í skjóli Alþingis hér úti á Austurvelli.

Nú vill svo til að á Grænlandi eru skráðir 6 þús. veiðimenn, þar af 2 þús. atvinnuveiðimenn, og það er frjáls kvóti á sauðnautum. Hið sama gildir um hreindýr, a.m.k. á Kangerlussuaq-svæðinu og ég tel þess vegna að við eigum að efla og styrkja þessa vini okkar, grænlenska veiðimenn, með því að greiða fyrir innflutningi á þessum vörum til Íslands.

Að því er rjúpur varðar spyr ég: Hvernig stendur á því að Íslendingar eru stundum í rjúpnaskorti að flytja inn rjúpur frá Evrópusambandinu en ekki frá Grænlandi? Kann það að liggja í einhvers konar viðskiptahindrunum? (Forseti hringir.) Um það spyr ég hæstv. ráðherra, sem ég veit að er, eins og ég, mikill áhugamaður um að efla þessi tengsl millum landanna tveggja.