144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

innflutningur á grænlensku kjöti.

200. mál
[16:43]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að taka þetta mál upp og tek alveg sérstaklega undir það sem hann sagði um að efla samstarf við Grænlendinga, þar með talið við innflutning á því kjöti sem hér hefur verið gert að umtalsefni.

Mér þótti líka dálítið merkilegt að heyra frá hæstv. ráðherra að ferðamenn sem koma til landsins mega taka með sér til einkaneyslu 10 kíló af kjöti og það leiðir af sér spurningu: Úr því að hver einstaklingur sem ferðast þarna á milli má gera þetta, af hverju má þá ekki gera þennan innflutning frjálsara og meiri en í dag?

Aðeins varðandi það að efla samstarfið, ég get tekið undir þetta eins og ég gerði áðan en nefni líka loftferðasamning með beint flug milli Íslands og Grænlands sem mundi gagnast báðum þessum löndum mjög vel. Þess vegna er ég algjörlega hlynntur því að núverandi stjórnvöld beiti sér fyrir fríverslunarsamningi við Grænlendinga hvað það varðar.

Lokaspurning mín til hæstv. ráðherra er um rjúpur og hreindýr sem hann segir að séu með 0% tolli: (Forseti hringir.) Er það þá ekki alveg til enda, er það nokkuð þannig að það verði settir á innflutningstollar eins og á aðrar landbúnaðarvörur ef skortur er á þeim afurðum á Íslandi?