144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

brotthvarf Vísis frá Húsavík.

229. mál
[16:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Sjávarútvegsfyrirtækið Vísir hf. í Grindavík tilkynnti um lokun starfsstöðvar sinnar á Húsavík 1. maí síðastliðinn. Áður hafði þetta fyrirtæki sent inn ósk um byggingarleyfi til stækkunar í október fyrir rúmu ári en við starfsstöðina á Húsavík störfuðu 66 einstaklingar. Þeim hefur öllum verið sagt upp og fjöldi manns hefur flutt á brott. Þess má geta að skip á vegum fyrirtækisins hefur fengið töluverðan byggðakvóta á undanförnum árum til að veiða vegna staðsetningar á Húsavík. Þá þegar hófst undirbúningur að lokun verksmiðjunnar. Tól og tæki voru rifin niður og ýmist flutt til Grindavíkur eða á Djúpavog, svo skrýtið sem það nú er.

En hvaða áhrif hefur þetta brotthvarf Vísis á samfélagið? Jú, ljóst er að sveitarfélagið verður af talsverðum útsvarstekjum sem eru áætlaðar um 42–50 millj. kr. á ári og um 6% vinnufærra manna missa vinnuna og um 35 til 40 manns hafa ákveðið að flytja og þegar flutt. Þetta jafngildir því að um 3.200 manns væri sagt upp í Reykjavík. Það allra versta er að með þessu hverfa um 60% af aflaheimildum á Húsavík, eða um 3.000 tonn. Þetta hefur áhrif á ýmsa aðra starfsemi. Þannig hefur til dæmis starfsemi Eimskips dregist saman og þetta hefur auðvitað stór áhrif á verslun, iðnað, þjónustu o.s.frv. Meira að segja ísklefi sem var í eigu Vísis og er staðsettur í gömlu rækjuverksmiðjunni fellur úr notkun, sem er mjög alvarlegt fyrir ýmsa aðra starfsemi á svæðinu.

Eins og ég hef hér rakið, virðulegi forseti, eru þetta mjög alvarlegar afleiðingar sem koma fram við þetta brotthvarf. Bæjaryfirvöld á Húsavík hafa rætt á tveimur ef ekki þremur fundum við okkur þingmenn Norðausturkjördæmis þá alvarlegu stöðu sem komin er upp. Mér er kunnugt um það, virðulegi forseti, að á einum fundinum voru fulltrúar þáverandi meiri hluta bæjarstjórnar, þ.e. framsóknarmenn, sjálfstæðismenn og samfylkingarmenn, og fóru framsóknarmenn og hittu forsætisráðherra sem jafnframt er 1. þm. kjördæmisins um þetta alvarlega mál. En engu að síður eins og þetta er búið að standa yfir í langan tíma, eða frá maí þessa árs, hefur nánast ekkert gerst. Beiðni bæjaryfirvalda í Norðurþingi um mótvægisaðgerðir hefur ekki borið árangur.

Þess vegna hef ég sett fram, virðulegi forseti, eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

Til hvaða mótvægisaðgerða hyggst ráðherra grípa vegna brotthvarfs sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis frá Húsavík?

Mér er kunnugt um það, virðulegi forseti, til að stytta svarið, að 300 tonna byggðakvóti sem skiptist niður á Húsavík, Kópasker og Raufarhöfn, eða um 300 tonn, er mestmegnis vegna rækjuveiða. En vegna þess alvarlega ástands sem þarna (Forseti hringir.) er uppi hefur ekkert komið í staðinn þrátt fyrir fundi og þrátt fyrir að menn hafi minnst á nokkrar leiðir til að skapa mótvægisaðgerð gagnvart því alvarlega ástandi sem brotthvarf fyrirtækisins er.