144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

brotthvarf Vísis frá Húsavík.

229. mál
[16:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér var spurt: Til hvaða mótvægisaðgerða ætlar ráðherra að grípa vegna þess ástands sem skapast hefur á Húsavík í framhaldi af brotthvarfi Vísis? Svarið er býsna skýrt og einfalt: Ekki neinna.

Stærri þéttbýlisstaður — það er skilgreiningaratriði hvað er stórt og hvað er lítið í því samhengi. En þeir ágallar sem eru á kvótakerfinu, og þeim ákvörðunum sem útgerðarmenn geta tekið með því að flytja aflaheimildir sem byggðarlög hafa skapað rétt til með störfum sínum að útgerð og fiskvinnslu um áratugaskeið, æpa auðvitað á mann í málefnum Vísis.

Það er sannarlega full ástæða fyrir ráðherrann, þó að hann telji sig hafa úr takmörkuðum potti að spila gagnvart þeim byggðarlögum sem höllum fæti standa vegna slíkra aðgerða og hann hafi ekki nóg í þeim potti fyrir Húsavík — þá spyr maður hæstv. ráðherra: Er þá ekki rétt að sækja á ríkisstjórnina (Forseti hringir.) um frekari úrræði ráðherranum til handa til að styðja byggðarlög eins og Húsavík með mótvægisaðgerðum eins og önnur?