144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

brotthvarf Vísis frá Húsavík.

229. mál
[17:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málefnalega umræðu um þetta erfiða mál. Það er ljóst, og kom meðal annars fram í máli einstakra þingmanna, að einn af kostum íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins er að það er mjög gott til að vernda stofnana og byggja þá upp með því að við högum okkur á ákveðinn hátt hvað varðar ákvörðun um heildarafla, að byggja hann á vísindalegum grunni o.s.frv. Við þekkjum það líka að arðsemi þessarar greinar á Íslandi er margfalt meiri en annars staðar. Menn hafa vitað það alveg frá 1990, þegar framsalið var leyft, að þessi staða mundi koma upp. Þrátt fyrir það hefur kannski ekki verið brugðist við á nógu ákveðinn hátt.

Ég fór yfir það í svari mínu hvernig við höfum ákveðið að forgangsraða þeim miðlum sem við höfum til hinna smærri byggðarlaga sem eiga engan annan möguleika á að byggja sig upp.

Það er rétt að Húsavík er stærri byggðakjarni sem er í stærra vinnusóknarsvæði. Þar eru fjölbreyttari möguleikar til atvinnusköpunar, fjölbreytts atvinnulífs, og við þurfum kannski að horfast í augu við það á Íslandi að ekki verði sjávarútvegur á öllum stöðum eins og hann var 1950 eða 1980 eða 2000. Hann er síbreytilegur. Ég held að þingmenn þurfi að horfast í augu við það.

Ég tek hins vegar undir það að við þurfum að finna byggðafestu í kerfinu. Þau sjónarmið sem ég fór fram með, smærri byggðirnar, þar erum við að reyna að leita leiða til þess. Ég held að við séum á réttri leið með því að úthluta kvóta í gegnum Byggðastofnun til lengri tíma.

Það er þannig að ríkisvaldið hefur úr að spila ákveðnum heimildum. Ég held að við séum öll sammála um að þau úrræði séu ekki endilega þau bestu eins og þau hafa verið notuð á síðustu árum, hvort sem heitir byggðakvóti, línuívilnun, strandveiðar, bætur eða annað. (Forseti hringir.) Þau hafa ekki endilega skilað sér sem best til að auka byggðafestu eða fjölga fjölbreyttum tækifærum í atvinnulífi eða bæta samfélagið. Það er verkefni sem við verðum að fara yfir og það eru þau tæki sem við höfum. En eins og staðan er í dag eru þau tæki ekki möguleg hvað varðar Húsavík.