144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar í ljósi þess sem fram kom í gær og fjallað var um í Kastljósi í gærkvöldi að ræða mál þeirra sem eru með sjón- og heyrnarskerðingu og fara aðeins yfir þau.

Það er mjög gleðilegt að ríkisstjórnin og fjárlaganefnd hafi ákveðið að leggja þessum málaflokki til aukið fé nú í lok ársins þar sem er svo sannarlega mikil þörf. Mér leiðist hins vegar að fréttaflutningurinn byggist á því að meiri hluti fjárlaganefndar hafi einungis komið að þessu máli og finnst ástæða til þess að fara aðeins yfir það. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom með þetta mál inn í allsherjar- og menntamálanefnd. Þar var búið að fjalla töluvert um það og boða fólk á fund sem málið varðaði, m.a. formann Félags heyrnarlausra og starfsmann Fjólu – félags fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, til að fara yfir stöðuna.

Það er alveg ljóst að þrátt fyrir að við setjum inn í þennan málaflokk núna 4,5 milljónir þá duga þær ekki nema bara til þess að klára þetta ár. Því er það mjög mikilvægt þegar verið er að vinna að tillögum vegna fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2015 að þessum sjóði verði gert hátt undir höfði. Í rauninni þarf að fara yfir þann tímafjölda sem fólk fær vegna þessa sjóðs. Eins hafa félögin boðist til þess og gerðu það í fyrrahaust að skilgreina þörfina, vinna ítarlegri skilgreiningu á túlkaþjónustu. Þau lögðu m.a. til að ráðuneyti atvinnumála kæmi að þessu o.fl. Ég held að við eigum að nýta okkur þetta fólk til þess að sýna okkur (Forseti hringir.) nákvæmlega hvernig þessum málum er best fyrir komið.