144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Starfsstöð Fiskistofu á Ísafirði hefur verið lokuð frá áramótum, veiðieftirliti stofnunarinnar hafði verið hætt og starfsstöð fiskeldis komið í staðinn. Starfsemin þar hefur legið niðri frá áramótum og nú hefur annað tveggja starfa sem var á starfsstöðinni á Ísafirði verið auglýst laust til umsóknar. Starfið er að vísu ekki á Fiskistofu og því síður á Ísafirði heldur er starfið hjá Matvælastofnun á Selfossi. Starfsheitið þar er sviðsstjóri fiskeldis og meðal verkefna starfsmannsins er að skoða búnað fiskeldisstöðva og viðbrögð við slysasleppingum og fleiru. Þetta breyttist vegna þess að nýtt frumvarp síðasta vor um fiskeldi færði þessi verkefni frá Fiskistofu til Matvælastofnunar og þá lýsti hæstv. sjávarútvegsráðherra því yfir að finna yrði starfsstöðinni á Ísafirði önnur verkefni tengd Fiskistofu. En ekkert bólar á þeim verkefnum enn.

Hæstv. ráðherra telur rétt að flytja Fiskistofu með manni og mús til Akureyrar og vílar það ekkert fyrir sér. Nú hefur umboðsmaður Alþingis krafið ráðherra svara varðandi þennan flutning og á hvaða lagagrundvelli flutningurinn byggir og óskar eftir öllum gögnum sem styðja þá lagalegu ákvörðun.

Bandalag háskólamanna hefur lýst yfir miklum áhyggjum af þessu, eðlilega, og telur að líta beri á flutninginn sem ólögmæta uppsögn sem gæti leitt til bótaskyldu ríkissjóðs. Ég held því að mjög gott væri að fá svör við þessu hjá umboðsmanni Alþingis.

Ég spyr: Á hvaða vegferð er hæstv. sjávarútvegsráðherra? Ef hann vill landsbyggðinni svona vel og halda utan um starfsemi Fiskistofu úti á landi, út af hverju ver hann þá ekki þau störf sem eru til staðar úti á landi frekar en að ryðjast áfram með eitthvað sem ekki er víst hvort sé lagagrundvöllur fyrir, eins og flutning Fiskistofu til Akureyrar?