144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Það er fátítt að utanaðkomandi aðilar gangi á ríkisstjórnarfund á Íslandi en í morgun var brugðið út af þeirri venju þegar fulltrúar frá ungmennaráðum Barnaheilla, UNICEF og umboðsmanni barna hittu ráðherra á fundi í Stjórnarráðinu. Fundurinn var haldinn í tilefni af því að á fimmtudag, 20. nóvember, eru 25 ár liðin frá því að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð til. Það var einmitt 20. febrúar 2013 sem Íslendingar lögfestu loks sáttmálann. Það er okkur því öllum í hag að standa vel að þessum málum og líklega hefur viðræða og samtal ráðherra við börnin í morgun verið hluti af þeirri áætlun. Því miður er lítil hefð fyrir því að börn og ungmenni fái að taka þátt í ákvörðunum sem varða þau og þá sérstaklega innan stjórnsýslunnar, hugsa ég. Í því felst ein stærsta áskorunin með innleiðingu barnasáttmálans.

Ég vil sem alþingismaður fagna þessu nýmæli í morgun og ég veit að við eigum eftir að sjá meira af slíkum vinnubrögðum hér á hinu háa Alþingi. Í frétt frá UNICEF segja börnin og ungmennin sem fengu þetta tækifæri að það hafi verið gaman og gott að geta rætt beint við ráðherrana og bent þeim á ýmislegt sem mætti fara betur í umhverfi barnanna, svo sem geðheilbrigðismál og fleira.

Ég endurtek að þetta er mjög gott mál og ég fagna þessum vinnubrögðum.