144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kalla eftir stefnu í málefnum ferðamálaiðnaðarins. Hvað hafa stjórnvöld í hyggju varðandi umgjörð þeirrar atvinnugreinar og þróun hennar? Hvernig er verið að undirbúa móttöku ferðamanna á árinu 2015?

Þessu er brýnt að svara skýrt því að bæði fyrirtæki í ferðaiðnaði og sveitarfélög kvíða satt að segja næsta ári þar sem nánast ekkert virðist eiga að gera til að undirbúa móttöku ferðamanna og bæta aðstöðu á ferðamannastöðum og innviði friðlýstra svæða.

Hvað með viðhald á vegum? Ástand á vegum, hvort sem um er að ræða stofnvegi, héraðsvegi eða tengivegi, ógnar umferðaröryggi. Augljóst er að þegar ferðamenn eru orðnir nær milljón talsins gefa innviðir eftir ef ekki er gripið til aðgerða. Í fjárlögum 2014 var aðeins gert ráð fyrir 260 millj. kr. framlagi til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða þótt augljóst væri þá strax að það væri allt of lág upphæð. Í fjáraukalögum núna er óskað eftir 414 millj. kr. hækkun á fjárlagaliðnum til að setja í brýn verkefni sem augljóst var strax á árinu 2014 að þurfti að fara í.

Stefnuleysi hæstv. ríkisstjórnar og ráðherra málaflokksins er hrópandi og skortur á markvissri áætlunargerð og framtíðarsýn í málaflokknum er mikill. Svona virðist eiga að halda áfram vegna þess að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 er lagt til að aðeins 145,8 millj. kr. fari í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Það virðist vera að hæstv. ríkisstjórn hafi engin áform uppi um að leggja aukið fé til þess að bæta aðstöðu þannig að mögulegt sé bæði að koma í veg fyrir skaða og einnig að taka á móti ferðamönnum hér með einhverjum sóma.