144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[14:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er ánægjuefni að þessi ályktun sé að ljúka ferli sínu hér á Alþingi. Mig langaði að leggja áherslu á nokkur atriði sem mér finnst mjög mikilvægt að hafa í huga. Mér sýnist fókusinn vera þess eðlis að allir séu sammála um að við þurfum að fara í þessa vinnu. Það eru tvö atriði sem mér finnst mikilvægt að komi fram til þess að við missum ekki af lestinni, því við erum alveg að missa af lestinni, það er bara þannig.

Ef við drífum ekki í þessari vinnu, ef við tryggjum ekki að lagaumhverfið sé skýrt, munum við missa af lestinni. Það eru alveg gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir Ísland. Framtíðarsýn gæti glatast sem ég mundi ekki vilja týna því að sú framtíðarsýn sem kristallast í þessari tillögu er sú framtíðarsýn sem ég held að yngri kynslóð Íslendinga hugnist.

Mig langaði meðal annars að fókusera á milliliðaverndina sem er tekin sérstaklega fyrir í þessari ályktun. Ég ætla að vísa hér í umsögn frá IMMI, stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mikið kapphlaup er hafið á milli þjóða heimsins til að styrkja rekstrarumhverfi á internetinu og laða til sín fyrirtæki hvers starfsemi hvílir á notkun netsins. Hugvitið er að miklu marki ónýtt auðlind hér á landi og er mikilvægt að búa því hugviti sem hér er bestu mögulegu skilyrðin, jafnframt því að laða til landsins hugvit annars staðar frá.“

Frá því áðurnefnd þingsályktunartillaga leit dagsins ljós og var einróma samþykkt af Alþingi — þá er ég að vísa í þingsályktun sem var samþykkt hér á 138. löggjafarþingi en því miður hefur gengið treglega að fá núverandi ríkisstjórn til að halda áfram með þá vinnu — hefur Ísland heldur dregist aftur úr hvað þetta varðar. Ljóst er að einhver bestu sóknarfæri okkar í þessum efnum felast í þeim lagaramma sem sú þingsályktunartillaga kvað á um. Friðhelgismál hafa statt og stöðugt verið í alheimsumræðunni, en trygging bestu notendaverndar sem völ er á mun laða til sín fyrirtæki og einstaklinga úr tækni-, fjölmiðla- og upplýsingageiranum.

Mikilvægt er að ítreka mikilvægi ákveðinna þátta þegar hugað er að réttindavernd fyrir notendur. Þá vil ég vísa í milliliðaverndina. Vernd milliliða, sem áðurnefnd þingsályktunartillaga tekur til, er lykilþáttur í því að laða hingað til lands fyrirtæki sem starfa í þeim geirum þar sem upplýsingamiðlun á sér stað, enda mundi það valda hýsingarfyrirtækjum miklum vanda ef þau væru lagalega ábyrg að öllu jöfnu fyrir þeim upplýsingum sem eru hýstar hjá þeim. Á sama tíma vilja þeir sem hýsa gögn vera öruggir um sinn hag. Ekki síst vilja þeir sem hýsa vefsíður eða annað á Íslandi vera öruggir um að verða ekki fyrir ritskoðun eða hvers kyns tálmunum á útgáfu nema til dómsúrskurðar komi. Því er ekki hægt að gera milliliði ábyrga og lög um það verða að vera skýr. Þetta tekur til fjarskiptalöggjafarinnar og laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu.

Stór fyrirtæki, sem hingað kunna að vilja flytja sína starfsemi, sem og lítil og millistór fyrirtæki gera það ekki ef þessi ákvæði eru ekki skýr og er þetta meginuppistaða þeirra laga sem IMMI-þingsályktunin kveður á um er varðar viðskipti og sóknarfæri í þeim efnum á heimsvísu.

Mig langaði að bæta því við að ég hef á undanförnum tveimur mánuðum hitt marga aðila sem höfðu litið á Ísland sem landið sem þeir vildu setja á oddinn, meðal annars stóra fjárfesta. Það kom fram á þeim fundum að ef við förum ekki að spýta í lófana og aflétta lagalegri óvissu mun athygli þeirra beinast annað. Mér finnst það mjög leiðinlegt út af því að við vorum með svo mikið forskot. Ég fagna sérstaklega þessari ályktun út af því að ef við spýtum í lófana og framkvæmum þetta hratt — við höfum ekki tíma til að bíða í mörg ár eftir að vinna starfshópsins skili af sér lögum sem verða samþykkt á Alþingi. Við verðum að spýta í lófana, það er svo mikilvægt því annars missum við af lestinni.

Finnar hafa, og Eistar líka, lagt gríðarlega mikla áherslu á þennan málaflokk, eftir að ljóst varð að Nokia var ekki lengur gulleggið þeirra og hafa náð mjög góðum árangri á skömmum tíma. Við erum í samkeppni og þurfum að haga þessum lagabálkum í samræmi við það ef þetta er sú sýn sem við viljum hafa og stefna á frekar en til dæmis áburðarverksmiðjur.

Síðan er annað og það er mál sem er hér til umfjöllunar á Alþingi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem er gagnageymdin. Í umsögn IMMI kemur meðal annars fram, með leyfi forseta:

„Afnám gagnageymdar — sem brýtur gegn meðalhófsreglu — skiptir sköpum fyrir friðhelgi notenda, bæði er varðar einstaklinga og fyrirtæki, en ekki síst fjölmiðla og fyrirtæki í upplýsingageiranum. IMMI-stofnunin væntir þess að í kjölfar dóms Evrópudómstólsins um að tilskipun Evrópuráðsins um gagnageymd samrýmist ekki evrópskum lögum“ — en þessi dómur féll 8. apríl 2014 — „að litið verði til mannréttinda-, friðhelgis- og meðalhófssjónarmiða í afgreiðslu frumvarps þess efnis sem liggur fyrir á Alþingi. Er ekki annað að sjá en að um nátengd atriði sé að ræða þegar kemur að notendavernd.

IMMI varar þó við því að regluverk í kringum internetið verði of mikið og of flókið. Internetinu farnast best með sem minnstri íhlutun stjórnmálanna. Tryggja þarf frelsi þess og réttindi notenda. Í því ljósi er löngu tímabært að íslensk löggjöf og regluverk taki mið af þeirri upplýsinga- og tækniöld sem nú er gengin í garð.“

Ég er mjög ánægð að sjá hve vel þessari tillögu sem við fjöllum hér um hefur verið tekið hér á Alþingi. Ég vil ítreka það að til þess að við getum haldið því forskoti sem við höfðum þurfum við að leggja mikið á okkur, þ.e. til að ná því aftur. Það er eiginlega orðið þannig, út af seinagangi núverandi stjórnvalda, að fólk er farið að leita annað, það er bara þannig, hvort sem það eru mannréttindasamtök, fjölmiðlar eða þeir sem vilja hýsa gögn, t.d. Twitter eða slíkir aðilar, að þeir eru farnir að líta annað. En við eigum enn tækifæri. Í þessari tillögu felast þau. Ég vil hvetja þá til dáða sem taka við tillögunni, svo að ekki fari fyrir henni eins og farið hefur fyrir þingsályktuninni sem kennd hefur verið við IMMI.

Það er mjög mikilvægt að þessi starfshópur starfi ekki bara tímabundið heldur til framtíðar því að málefni er lúta að tækni og lög um þau þurfa stöðugt að vera í endurskoðun. Það hefur háð löggjafanum mikið víðs vegar um heim hve svifasein þingin eru að uppfæra lög í takti við þann veruleika sem við búum við.

Það er mjög mikilvægt, ég vil ítreka það, að þeir sem fjalla munu um lögin sem hér eru til umræðu hugi að því að þegar við erum að smíða lög sem tengjast tækniheimi og opnun gagna eigum við að leggja jafn ríka áherslu á að tryggja að friðhelgi einkalífs sé virt í hinu stafræna rófi eins og gert er að flestu leyti í hinum svokallaða raunheimi.

Að endingu vil ég fagna þessum áfanga. Það er mikið starf fyrir höndum. Ég fagna því líka hve Alþingi hefur tekið þessari tillögu frá Pírötum vel og vil þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir þá hugmyndafræði og þá vinnu sem hann hefur lagt í málið.