144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[14:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það má eiginlega segja að þegar við náðum í gegn þingsályktunartillögunni um upplýsinga- og tjáningarfrelsi höfum við brotið í blað í sögu Alþingis. Ég fagna því mjög að þingmannatillögur fái brautargengi á Alþingi því að það er sá vettvangur þar sem við getum fundið samhljóm og í raun og veru breytt samfélaginu án þess að til þess þurfi skotgrafahernað eða eitthvað slíkt. Mér finnst bara mjög mikilvægt að við getum unnið á þennan hátt.

Mig langar að spyrja hv. þm. Kristján Möller um eitt atriði um leið og ég þakka þingmanninum kærlega fyrir hans góðu orð hér. Nú lagði ég fram þingsályktunartillögu nýverið um jafnt aðgengi að netinu, sem er nú í umhverfis- og samgöngunefnd, en hún fjallar nákvæmlega um það sem hv. þingmanni er hugleikið, og það er spurning hvort þeirri þingsályktunartillögu, ef hún næst í gegnum nefndina, verður hreinlega vísað þá í þennan starfshóp, út af því að þetta hangir allt saman.

Ég hef búið víða úti á landi og þekki marga sem búa úti á landi og hef mikinn áhuga á fjarvinnu og fjarnámi. Ég veit að þetta háir mjög mörgum hvað það er mikið ójafnræði í aðgengi að netinu. Ég fagna því að þingmaðurinn hafi bryddað upp á nákvæmlega þessum þætti og spyr hv. þm. Kristján Möller hvort honum finnist þá ekki tilefni til þess að reyna að samþætta þá þingsályktunartillögu sem núna er í umhverfis- og samgöngunefnd, hvort það sé kannski rétti vettvangurinn eða hvort sú tillaga ætti heima einhvers staðar annars staðar.