144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér hreyfir hv. þingmaður öðru máli og minnir á annað þingmál sem hún hafði flutt um jafnt aðgengi að netinu, sem er í umhverfis- og samgöngunefnd, og spyr mig hvort ég telji það grundvöll til að fá þá tillögu þar í gegn og vísa henni til þessa starfshóps. Þetta hljómar ákaflega vel hér, í fyrsta skipti sem ég heyri þessa tillögu, og ég hvet til þess að umhverfis- og samgöngunefnd skoði það með tilliti til þess hvort tillögunni verði breytt eitthvað þar sem þessu þinggagni og greinargerð er vísað í starfshópinn, eins og hv. þingmaður fjallaði um. Ég held að það sé málinu til góðs og sé farsæl lausn á þeirri tillögu. Ég hvet þá til þess að það sé rætt í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég skal ræða það við samflokksmann minn sem situr í þeirri nefnd, Katrínu Júlíusdóttur, sem ég veit að er mjög áhugasöm um þetta.

Að öðru leyti vil ég taka undir og ítreka það sem ég sagði áðan: Það er til mikils góðs hvað Alþingi, alþingismenn og nefndir hafa tekið að sér mikið frumkvæði að taka mál, eins og þetta, frá minni hluta og koma því í gegnum þingið. Þetta byrjaði á síðasta kjörtímabili og vonandi heldur það áfram. Ég átti tillögur á síðasta þingi eins og tillögu um Landspítala, tillögu um myglusvepp o.fl. sem fóru í gegn og voru samþykktar, mikilvægar tillögur. Það sýnir meira sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og ég er ákaflega ánægður með það.