144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[14:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessi viðbrögð. Ég hafði greinilega ekki reiknað með því þegar við vorum að setja saman þingsályktunartillöguna um jafnt aðgengi, sem spratt upp í raun og veru í tengslum við alþjóðadag hins svokallaða „Net Neutrality“, sem er svolítið erfitt að þýða á íslensku, réttilega. En mig langaði að gera eitthvað til að sýna fram á mikilvægi þess að hafa jafnt aðgengi að netinu og þá sér í lagi út frá jöfnu aðgengi fyrir alla og að netinu verði ekki tvískipt milli þeirra sem eiga mikla peninga og þeirra sem vilja bara nota það eins og við höfum alltaf notað það.

Ég þakka þingmanninum fyrir að sjá nýjan farveg fyrir þá þingsályktunartillögu, hvernig henni muni vegna sem best í samhengi við þetta. Svona geta góðir hlutir gerst í samræðum og það er það sem mér finnst persónulega dýrmætast við Alþingi, þennan vettvang, þennan samræðuvettvang og þennan sal, er að geta fundið lausnir saman. Ég vil að lokum taka undir með hv. þm. Kristjáni Möller að ég fagna því að við erum farin að taka til okkar meiri ábyrgð hér á þinginu. Það er gríðarlega mikilvægt í stóra samhenginu.