144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

vörugjald.

36. mál
[15:31]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, með síðari breytingum, og varðar það breytingu á vörugjöldum sem leggjast á jarðstrengi til raforkuflutnings.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Frumvarpið er afar einfalt eins og sjá má á 1. gr. Þar segir einfaldlega, með leyfi forseta:

„Tollskrárnúmerið 8544.6000 fellur brott úr C-lið viðauka I.“

Síðan í 2. gr.:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Sambærilegt frumvarp var flutt á 143. löggjafarþingi, það var 506. mál þess þings og var reyndar afgreitt til 2. umr. með sameiginlegu nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar þar sem mælt var með samþykki frumvarpsins, en þá var komið að þinglokum og varð ekki af afgreiðslu málsins í annríki lokadaga þingsins. Frumvarpið er því endurflutt í óbreyttri mynd og vonast ég eftir því og sýnist reyndar flest benda til þess að málið fái fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi með einum eða öðrum hætti.

Frumvarpið gengur sem sagt út á það að gera breytingar á lögum um vörugjald, að fella brott áðurnefnt tollskrárnúmer úr nefndum C-lið viðauka I við lögin. Það felur í sér að 15% vörugjald sem lagt er á vörur í þessu tollskrárnúmeri fellur þar með brott. Undanfarin þrjú ár hafa tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum í þessum flokki verið á bilinu 100 til liðlega 200 millj. kr., breytilegt eftir innflutningi á hverju ári.

Það sem undir þetta tollskrárnúmer fellur eru einangraðir rafmagnsleiðarar, rafstrengir fyrir meira en 1000 V spennu. Það á fyrst og fremst við um jarðstrengi til raforkuflutnings sem eru þá valkostur á móti raflínum í lofti, en þannig háttar til að efni í loftlínur til raforkuflutnings ber engin vörugjöld. Því hefur það verið svo að 15% vörugjaldið sem lagt var á jarðstrengina bjagar að þessu leyti forsendur vals á milli jarðstrengja og loftlína umtalsvert, en ætla má að allt að 5% kostnaðar við lagningu jarðstrengja geti stafað af þessu vörugjaldi sem gerir þann valkost þá sem því nemur dýrari en raflínu í lofti.

Engin eða a.m.k. mun minni sjónmengun hlýst að jafnaði af jarðstrengjum en loftlínum. Jarðstrengir eru mjög varanleg og góð lausn þar sem t.d. þarf að leiða rafmagn um erfið veðursvæði, enda er svo komið að almennt fer öll endurnýjun dreifikerfis og lágspenntara kerfis fram með lagningu jarðstrengja. Þá getur lagning jarðstrengja í stað loftlína í ýmsum tilvikum verið öryggismál, t.d. í nálægð flugvalla. Síðast en ekki síst er val á milli jarðstrengja og loftlína iðulega mikið hitamál eða viðkvæmnismál þegar kemur að sjónarmiðum umhverfisverndar. Vegast þá yfirleitt á sjónarmið, annars vegar um að lágmarka sjónræn og annars konar áhrif af raflínum í lofti með því að leggja þær frekar í jörð, og svo hins vegar spurningin um að velja ódýrari kostinn. Það er mat okkar flutningsmanna að það sé algjört lágmark að slíkur samanburður fari fram á hlutlausum grunni hvað skattlagningu snertir. Verður reyndar að teljast merkilegt að þessi mismunun skuli hafa viðhaldist allt fram á þennan dag. Það er enginn vafi á því að sú leið að velja lausn með jarðstrengjum, annaðhvort á ákveðnum leiðum í heild sinni eða yfir afmarkaða kafla, sem eru viðkvæmir í umhverfislegu tilliti eða af öðrum ástæðum, getur verið til þess fallin að leysa deilur um slík mannvirki. Þess vegna er með öllu ástæðulaust og í raun og veru fráleitt að heimta hærri gjöld af jarðstrengjum en loftlínum.

Því má svo bæta við að í tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína í jörð, sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra mælti fyrir hér fyrir ekki svo löngu síðan, er að finna í tölulið 2 í tillögugreininni, það er þskj. 392, 321. mál þessa þings, en þar segir, með leyfi forseta, undir fyrirsögninni „Vörugjöld af raflínum“:

„Alþingi ályktar að afnumið verði með breytingu á lögum það misræmi sem er á vörugjöldum af jarðstrengjum og loftlínum þannig að tryggt sé að slíkir þættir hafi ekki áhrif á þá leið sem valin er við útfærslu framkvæmda í flutningskerfinu.“

Þetta er sem sagt sú tillaga sem nú er gengin til nefndar og snýr að því að setja ramma um stefnumótun stjórnvalda hvað varðar það álitamál hvar rafmagn er leitt í jarðstrengjum eða hvar loftlínur eru lagðar, og tengist frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum, m.a. um stöðu kerfisáætlana. Frumvarp þetta, sem var með fyrstu málum þessa þings, væri því í sjálfu sér til fullnustu á þessu ákvæði í tillögu ráðherra til þingsályktunar sem væri þá þar með orðið óþarft ef búið væri að afnema þennan mismun.

Frú forseti. Loks ber að geta þess að um svipað leyti og frumvarpinu um að fella niður vörugjald af jarðstrengjum var dreift birtist frumvarp frá fjármála- og efnahagsráðherra um ýmsar breytingar í skattamálum þar sem gert er ráð fyrir því að vörugjöld almennt hverfi úr sögunni. Væri það að sjálfsögðu sömuleiðis endanlegur frágangur á þessu máli. Það má því segja að ekki liggi þá færri en þrjú mismunandi þingmál fyrir hinu háa Alþingi þar sem tekið er á þessu efni. Ég læt mér að sjálfsögðu í léttu rúmi liggja hvaða mál það verður sem fær afgreiðslu eða hvernig Alþingi stendur að því að ljúka því. Það er löngu tímabært og þótt fyrr hefði verið að láta þennan mismun hverfa sem vakti í raun og veru undrun þegar manni varð það ljóst að svona hafði þessu verið fyrir komið undanfarin ár.

Tekjurnar af þessu eru ekki teljandi þó að sá sem hér talar vilji gjarnan halda til haga þeim sjónarmiðum og passa upp á að einhverjir vinir ríkissjóðs séu til staðar þegar verið er að ræða mál sem hafa áhrif á útgjöld þar. En satt best að segja eru tekjurnar ekki af þeirri stærðargráðu að ástæða sé til að dvelja lengi við það, ég tala nú ekki um ef menn telja sig hvort sem er hafa efni á því að fella niður vörugjöld í heild sinni og jafnvel þar með talið af sykri og sykruðum vörum, þannig að tekjustofn upp á nokkra milljarða kr., sem er sykurskatturinn, hverfi af yfirborði jarðar eða héðan af Íslandi, þá ætti það ekki að standa í mönnum þó að þarna hafi fallið til tekjur af stærðargráðunni 100–200 milljónir á ári nokkur undanfarin ár.

Endurnýjun raforkukerfisins og auðvitað nýframkvæmdir líka eru brýnt þjóðþrifamál. Það hefur til að mynda gengið allt of hægt að endurnýja dreifikerfið og koma á þriggja fasa rafmagni, einkum í hinum dreifðu byggðum. Nú er svo komið að öll endurnýjun á dreifikerfi lágspenntu dreifikerfi rafmagns fer fram með jarðstrengjum og hér hefur verið um hreinan skatt á þær framkvæmdir að ræða, sem hlýtur að orka mjög tvímælis, annars vegar í ljósi þeirrar mismununar sem ég ræddi hér, milli jarðstrengja og raflína, og hins vegar í ljósi þess að ríkið greiðir á sama tíma nokkuð niður flutningskostnað raforku í dreifbýlissvæðin og einnig leggur fram fjármuni til jöfnunar húshitunarkostnaðar. Menn hafa þá verið að skattleggja sérstaklega framkvæmdir eða uppbyggingu og úrbætur á þessu sviði með annarri hendinni en ráðstafa svo peningum úr ríkissjóði í sama málaflokk aftur með hinni. Það held ég að hafi verið afar óskynsamleg ráðstöfun. Hefðu menn fyrir löngu, eða þótt ekki væri nema nokkrum árum síðan, fellt niður vörugjald af jarðstrengjum þá hefði framkvæmdafé t.d. Rafmagnsveitna ríkisins, sem eru væntanlega langstærsti aðilinn sem hér á hlut að máli með stærsta dreifikerfið um byggðir landsins, nýst betur sem því næmi og hægt að gera meira á hverju ári ef ekki hefði verið fyrir þessa sérstöku skattlagningu í formi vörugjalda á þetta efni.

Frú forseti. Ég held að málið liggi afar ljóst fyrir og ég trúi því að hvernig sem það atvikast þá verði þessum mismun útrýmt með einhvers konar afgreiðslu á þessu máli, annaðhvort þessu frumvarpi eða þá að það gerist í frumvarpi fjármálaráðherra.

Að lokum legg ég til að að lokinni þessari umræðu gangi málið til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem hér er um skattamál að ræða. Mér er að vísu ljóst að tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína hefur gengið til atvinnuveganefndar, en engu að síður held ég að rétt sé í þessu tilviki að láta málið ganga til þeirrar þingnefndar og fagnefndar sem áður hefur fjallað um það og fjallar almennt um skattamál sem er efnahags- og viðskiptanefnd.