144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

bætt hljóðvist og aðgerðir til að draga úr erilshávaða í kennsluhúsnæði.

209. mál
[15:55]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla rétt að koma inn á það góða mál sem hér er á ferð og byrja þar sem frummælandi endaði. Það er merkilegt að þetta mál skuli ekki hafa náð fram að ganga í ljósi þess hversu alvarlegt það er; sá vandi sem skólakerfið stendur frammi fyrir varðandi það sem kallað er erilshávaði.

Ég kem innan úr þessum geira og þekki á eigin skinni hvernig þetta virkar. Ég man eftir því að þegar ég var að kenna ungum börnum í 4. og 5. bekk var gamli íþróttasalurinn í bænum nýttur til þess. Þar var hátt til lofts og vítt til veggja eins og gefur að skilja í slíku húsnæði. Slysavarnafélagið, minnir mig að hafi verið, lánaði okkur risavaxið eyra sem var hengt upp á vegg og það varð rautt þegar hávaðamörkin fóru yfir ákveðið stig. Það þarf svo sem ekkert að orðlengja það neitt frekar, eyrað var meira og minna alltaf rautt, sem er óheppilegt. Það var ekki endilega vegna þess að börnin væru sérstaklega hávaðasöm í þessum bekkjardeildum, heldur var það líka húsnæðið sem slíkt. Það er kannski það sem sveitarfélögin bera ábyrgð á, þ.e. að lagfæra húsnæði sitt til þess að nemendur og starfsfólk þurfi ekki að búa við slíkan hávaða.

Hér var minnst á íþróttaæfingar. Framhaldsskólanemar sækja líka tíma í íþróttahúsum á meðan þeir eru í skóla, framhaldsskóla sem er rekinn af hálfu ríkisins. Ég dreg ekkert í efa að þar er þetta sama vandamál til staðar og í grunnskólanum, í hita leiksins er það eitthvað sem þarf að skoða.

Málið varðar líka ýmsar verknámsdeildir í framhaldsskólanum. Væntanlega má heimfæra þetta á þær; málmsmíðar, bifvélavirkjun, þar sem töluverður hávaði getur orðið, og gæta þarf að því að notaður sé viðeigandi hlífðarbúnaður sem ég efast ekki um að sé gert. En þetta er mál sem er ekkert mjög mikið rætt utan skólasamfélaga. Margir vinnustaðir búa við þennan vanda líka. Það er mikill hávaði og fólk getur orðið þreytt af því að vera í slíku umhverfi.

Við stöndum frammi fyrir því að börn á öllum aldri eru með eitthvað í eyrunum meira og minna frá því þau vakna þar til þau fara að sofa og því er enn mikilvægara en áður að í því umhverfi sem skólinn er gildi reglugerðir til að gæta þess að þau verði ekki fyrir skaða vegna aðstæðna. Í ljósi tíðarandans er enn mikilvægara að að þessu sé gætt. Þarna á Alþingi að koma að til að skoða þetta mál og tryggja þær reglur eða lög sem þurfa að gilda um þetta.

Í lokin á þessari tillögu er rætt um kennaranám. Ég held að það sé eitt af því sem gera þarf enn betur, þ.e. þetta með raddbeitinguna, röddin er jú atvinnutæki kennara. Það þyrfti kannski að vera eins og í söngnáminu þar sem fólki er kennt að beita röddinni betur. Hnútar á raddböndum eru því miður vandamál í kennarastétt og það er þekkt að kennarar missi röddina. En auðvitað snýr þetta fyrst og fremst að unga fólkinu okkar sem er í þessum aðstæðum alla daga.

Ég vona svo sannarlega að þetta mál nái fram að ganga. Það er lagt fram nokkuð tímanlega eins og hér kom fram, búið að leggja það fram þrisvar sinnum áður. Ég vona svo sannarlega að það nái fram að ganga, fari í umsagnarferli og helst að það náist að afgreiða það. Það er ekki slíkur kostnaður fyrir ríkið að setja þennan starfshóp á fót til að ganga úr skugga um mál sem er svona mikilvægt.