144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

stofnun áburðarverksmiðju.

96. mál
[16:00]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stofnun áburðarverksmiðju sem er að finna á þskj. 96. Flutningsmenn auk þess sem hér stendur eru hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Haraldur Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.

Tillagan orðast svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna svo fljótt sem verða má hagkvæmni og möguleika þess að reisa sem fyrst áburðarverksmiðju í Helguvík eða í Þorlákshöfn.“

Í greinargerðinni kemur fram að þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 143. löggjafarþingi og er nú endurflutt óbreytt þar sem hún fékk ekki brautargengi þá.

Undanfarin ár hefur heimsmarkaðsverð á áburði hækkað umtalsvert, einkum vegna aukinna áburðarkaupa eða áburðarnotkunar Kínverja og Indverja auk þess sem áburðarnotkun í Afríku eykst stöðugt. Heimsmarkaðsverð áburðar náði hámarki árið 2008. Síðan hefur verðið lækkað nokkuð en er nú heldur hærra en fyrir árið 2006. Í nýlegri grein í Morgunblaðinu, frá því í síðustu viku, kemur fram að áburðarverð hafi hækkað um 20% nú síðan um áramót og er næsta víst að þau 50 þúsund tonn sem við Íslendingar flytjum inn t.d. komi til með að kosta 3,5 milljarða kr. Ljóst er að áburðarverð mun að öllum líkindum haldast hátt í næstu framtíð vegna aukinnar ræktunar matvæla sem nauðsyn er á til að brauðfæða síaukinn mannfjölda. Það kemur fram í nýlegri skýrslu OECD að auka þarf matvælaframleiðslu í heiminum frá því sem nú er um 50% næstu 20 ár.

Árleg eftirspurn eftir áburði er um 3 milljónir tonna og því er spáð að hann aukist jafn mikið á ári næstu ár. Öllum er ljóst að á Íslandi er nauðsyn á atvinnuuppbyggingu. Brýn þörf er á að skapa ný vel launuð störf hér á landi til að vinna bug á atvinnuleysi, og segir í tillögunni að flutningsmenn vilji laða brottflutta Íslendinga aftur heim og vekja ungum Íslendingum von í brjósti um að stjórnvöld ætli sér að skapa þeim tækifæri og atvinnuöryggi í framtíðinni. Við þessa framkvæmd verða til 500–600 störf á framkvæmdatíma og að verksmiðjunni risinni verða til 150–200 framtíðarstörf, þar af um 40% þar sem krafist er háskólamenntunar og þar er um að ræða starfsmenn eins og efnafræðinga, verkfræðinga o.s.frv.

Það eru öll skilyrði hér á landi til uppbyggingar og rekstrar áburðarverksmiðju. Það er tiltölulega einfalt að vinna hér köfnunarefni. Það er nóg vatn sem þarf til verksmiðjunnar og hún notar mikla raforku til að framleiða vetni með rafgreiningu.

Það er einnig ljóst að bygging áburðarverksmiðju styður vel við áform stjórnvalda á Íslandi um aukna matvælaframleiðslu hér á landi og það er næsta víst að í framtíðinni þegar slagurinn verður meiri um þessa afurð er líka öryggi í því fólgið að hér sé starfandi verksmiðja sem framleiðir áburð. Það hefur verið í gangi hópur áhugamanna um byggingu áburðarverksmiðju sem hefur gert frumáætlun um byggingu verksmiðju sem mundi framleiða 700 þúsund tonn af áburði og 700 þúsund tonn af kalsíumnítrati, en kalsíumnítrat er auk þess að vera notað í áburð notað til að hreinsa vatn og sem íblöndunarefni í steinsteypu. Ætla má að útflutningsverðmæti slíkrar verksmiðju mundi hlaupa á tugum milljarða kr. Vegna aukinnar eftirspurnar er sífellt verið að byggja verksmiðjur hér og hvar í heiminum og það má t.d. minnast á nýlega verksmiðju sem er verið að reisa í Quebeck í Kanada. Sú verksmiðja kemur til með að framleiða 1,6 milljónir tonna af áburði og það er skemmtilegt að segja frá því að ammoníakgeymir þeirrar verksmiðju er hannaður af íslenskum verkfræðingum og vinna við hönnunin er tveggja manna verkefni í nokkur ár. Þannig að það verða til mjög mörg fjölbreytileg störf um skemmri og lengri tíma við þessa framkvæmd.

Að lokinni hagkvæmniathugun, verði niðurstaðan jákvæð, má ætla að erlendir fjárfestar muni renna hýru auga til þessa fjárfestingarkosts og það má líka minna á að fjárfesting í verksmiðju eins og þessari er mjög vænleg fyrir t.d. lífeyrissjóði sem gætu þá sem hægast dregið úr fjárfestingu í innlendum samkeppnisrekstri sem þeir hafa stundað nú mjög undanfarandi. Sá áhugahópur sem ég minntist á áðan kynnti þetta verkefni fyrir þáverandi stjórnvöldum fyrir um það bil tveimur árum en fékk ekki hljómgrunn. Okkur flutningsmönnum þykir mjög brýnt að hefja þegar hagkvæmniathugun vegna byggingar verksmiðjunnar sem lið í því að fjölga hálaunastörfum í gjaldeyrisskapandi starfsemi.

Ósk okkar flutningsmanna er að þingsályktunartillagan verði að lokinni fyrri umr. send hv. atvinnuveganefnd til umfjöllunar.