144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

húsaleigubætur.

211. mál
[16:27]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég legg fram mál um húsaleigubætur í fjórða skipti. Það hlaut jákvæða efnislega umfjöllun hjá velferðarnefnd á 140. þingi, sem lagði til að það yrði samþykkt óbreytt en því miður út af skarkala í þinglok komst það aldrei til atkvæðagreiðslu þótt einhugur væri um málið. Ég og þingflokkur Bjartrar framtíðar höfum því lagt þetta mál fram tvisvar í viðbót og núna í fjórða skipti. Það snýst um fremur einfaldan hlut, að jafna aðstöðumun milli stúdenta sem búa í félagslegu húsnæði og stúdenta sem þurfa að leigja á almennum markaði.

Stúdentar í félagslegu húsnæði geta notið húsaleigubóta þó að þeir deili eldhúsi og baði, þó að þeir búi í herbergi og í rými þar sem þeir þurfa að deila eldhúsi og baði með öðrum námsmönnum. Þetta er undanþáguákvæði í lögum um húsaleigubætur. Meginreglan er sú að þeir sem búa í herbergjum með sameiginlegum aðgangi að eldhúsi og baðherbergi skuli ekki njóta húsaleigubóta. En þessi undanþága er gerð fyrir námsmenn á framhalds- og háskólastigi ef þeir búa á heimavist eða á námsgörðum.

Þessi tillaga gengur einfaldlega út á það að fella burt það skilyrði að námsmenn þurfi að leigja á heimavist eða á námsgörðum til að njóta húsaleigubóta. Hún gengur út á að það nægi að þeir séu námsmenn á framhalds- og háskólastigi og að engu máli skipti hvar þeir leigi, hvort sem það er á almennum markaði eða á heimavist eða á námsgörðum. Alltaf þegar námsmaður á framhalds- eða háskólastigi þarf að deila baðherbergi og eldhúsi með öðrum geti hann undir öllum kringumstæðum fengið húsaleigubætur.

Velferðarnefnd tók vel í þetta þegar við lögðum frumvarpið fram fyrst á 140. löggjafarþingi og lagði til að það yrði samþykkt óbreytt. Síðan hefur málið ekki náð fram að ganga einhverra hluta vegna. Ég held að það sé aðallega vegna þess að alltaf er verið að bíða eftir því að inn í þingið komi yfirgripsmikið lagafrumvarp sem lúti að því að gjörbreyta öllu stuðningskerfi varðandi húsnæði, að leggja í raun af húsaleigubætur og taka upp einhvers konar húsnæðisbætur. Svona frumvarp hefur verið dálítið lengi á leiðinni og lengi verið boðað og mikil vinna farið fram um það en aldrei kemur frumvarpið fram. Til dæmis lagðist Samband íslenskra sveitarfélaga gegn þessu máli á síðasta löggjafarþingi. Það taldi ekki tímabært að fara í breytingar á húsaleigubótalögum vegna þess að frumvarp um gjörbreytingu á öllu stuðningskerfi varðandi húsnæði væri á leiðinni. En það bólar ekkert á slíku frumvarpi, það bólar ekkert á breytingum á húsaleigubótakerfinu eða frumvarpi um sérstakar húsnæðisbætur sem ná bæði til þeirra sem greiða vexti af húsnæðisláni og til þeirra sem leigja.

Við í þingflokki Bjartrar framtíðar leggjum því frumvarpið fram aftur. Við segjum einfaldlega: Það ætti að vera algjörlega sársaukalaust að samþykkja þessa smávægilegu breytingu á húsaleigubótalögunum þó svo að mögulega komi einhvern tíma fram margboðað frumvarp um breytingar á öllu þessu umhverfi. Það hefði farið vel á því að samþykkja málið strax á 140. löggjafarþingi. — Ég legg mig fram um að segja mjög oft í ræðunni hundraðogfertugasta löggjafarþing til að hylma yfir þær málfarslegar ógöngur sem ég rataði í í upphafi míns máls.

Þetta mál er til komið út af ástandi sem ríkir á leigumarkaði hjá stúdentum. Það er ekki nægilega mikið framboð af námsgörðum, félagslegu húsnæði fyrir stúdenta. Það kemur fram í umsögn frá stúdentaráði Háskóla Íslands að á síðasta ári voru þar 800 stúdentar á biðlista eftir húsnæði eða námsgörðum. Það er náttúrlega verið að byggja námsgarða þannig að verið er að glíma við þetta vandamál en mjög margir námsmenn þurfa engu að síður að leigja á almennum markaði. Þar þurfa þeir oft að leigja stórar íbúðir á háu verði, leiguverð er hátt, og þeir deila baði og eldhúsi. Þá kemur upp aðstöðumunur því stúdentar sem neyðast til að gera þetta, sem fá ekki inni á námsgörðum út af biðlistum, fá ekki húsaleigubætur en á námsgörðum fá þeir húsaleigubætur.

Svo er aðstöðumunur líka milli stúdenta eftir því í hvaða háskólum þeir stunda nám. Háskólinn í Reykjavík býður ekki upp á jafn mikið af félagslegu húsnæði og Háskóli Íslands, þannig að stúdentar þar þurfa í miklu meiri mæli að vera á almennum leigumarkaði. Þar er strax kominn upp aðstöðumunur milli stúdenta í Háskólanum í Reykjavík og í mörgum öðrum skólum á háskólastigi og þeirra sem læra í Háskóla Íslands.

Það bárust nokkrar jákvæðar umsagnir frá sveitarfélögum á síðasta ári og líka áður, sem leggja til að frumvarpið sé samþykkt. En áhyggjur sveitarfélaga af því hvort kostnaðarauki verði mikill eru skiljanlegar, að allt í einu geti einhver stokkur af stúdentum fengið húsaleigubætur sem á ekki rétt á þeim núna. Um það vil ég segja að ég held að sá kostnaðarauki sé óverulegur og ég held líka að hann muni í öllu falli koma fram í framtíðinni, vegna þess að það er verið að byggja námsgarða. Ef stúdentar fara á námsgarða fá þeir húsaleigubætur og markmiðið hlýtur að vera að hafa nógu mikið af námsgörðum, nógu mikið framboð af húsnæði fyrir námsmenn. Þá fá þeir húsaleigubætur. Það getur ekki verið markmiðið að mismuna stúdentum. Það getur heldur ekki verið markmiðið að þeir séu of margir á biðlista.

Ég mundi segja að þetta sé einfaldlega réttlætismál. Ég mundi ekki segja að það væri of dýrt, a.m.k. finnst mér kostnaðarsjónarmiðin vera svolítið vandasöm í þessu, vegna þess að það getur ekki verið markmiðið að halda mjög mörgum stúdentum frá félagslegu húsnæði til að spara húsaleigubætur.

Því legg ég og þingflokkur Bjartrar framtíðar til enn á ný, í fjórða skiptið og núna á 144. löggjafarþingi, að frumvarpið verði samþykkt fljótt og vel.