144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Bernskan er ævintýri og það er ævintýri að ala upp barn. Bernskan er dýrmæt og viðkvæm og þarfnast gætni og virðingar. Barnið þarf föruneyti og í því eru ekki aðeins vinir og vandamenn heldur samstarfsmenn og stofnanir. Stjórnvöld sem búa fjölskyldunni markvisst betra umhverfi eru í föruneyti barnsins. Stefna stjórnvalda sem er hliðholl fjölskyldunni styrkir barnið.

Á morgun, þann 20. nóvember, á barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna 25 ára afmæli. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn séu hópur sem þarfnast sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu og að réttinda þeirra hafi ekki verið nægilega gætt í fyrri mannréttindasamningum. Jafnframt felst í honum viðurkenning á því að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi, þau eigi sín réttindi óháð réttindum fullorðinna. Allar 54 greinar barnasáttmálans eru mikilvægar og jafn mikilvægar. Fjórar greinar eru þó taldar grundvallaratriði.

Það er 2. gr. sem fjallar um jafnræði og bann við mismunun en þar stendur, með leyfi forseta:

„Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.“

Svo er það 3. gr., það sem barninu er fyrir bestu:

„Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.“

6. gr., það er réttur til lífs og þroska:

„Sérhvert barn á meðfæddan rétt til lífs og skulu aðildarríkin tryggja að það megi lifa og þroskast.“

Síðan er það 12. gr., réttur barna til þess að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif:

„Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.“

Hæstv. forseti. Sem einn af talsmönnum barna á Alþingi mun ég halda sjónarmiðum barna (Forseti hringir.) hátt á lofti og hvetja aðra þingmenn til hins sama.