144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Um áramótin 2013/2014 ákvað Alþingi að taka úr fjárlögum heimild til sölu á landi ríkisins undir Reykjavíkurflugvöll. Þrátt fyrir að heimildina sé ekki að finna í fjárlögum þá fullyrðir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að náðst hafi samkomulag við þáverandi fjármálaráðherra Katrínu Júlíusdóttur og það samkomulag gildi.

Ástæðan fyrir því að heimildin var sett inn er sú að heimildin verður að vera til staðar þar til samkomulagið er fullnustað og þar til yfirfærslan hefur öll gengið eftir.

Ég hef verulegar áhyggjur af því að þrátt fyrir samkomulag ríkis og borgar og Icelandair Group, sem fól meðal annars í sér að stofna hina svokölluðu Rögnu-nefnd og bíða þar með með allar aðgerðir, þá heldur Reykjavíkurborg í sífellu áfram að gera grunninn að Reykjavíkurflugvelli minni og verri, þ.e. að gera hann að verri valkosti sem nauðsynlegan innanlandsflugvöll en ella.

Ég hef líka af því áhyggjur að borgarstjóri og borgarfulltrúar vísa í samkomulög og eru jafnvel að staðfesta þau mörgum árum seinna í borgarráði, eins og samkomulagið sem gert var á milli þáverandi borgarstjóra og Ögmundar Jónassonar sem þá var innanríkisráðherra, þrátt fyrir að hann stígi fram í blaðagrein og vísi til þess að það samkomulag hafi verið margbrotið, þar á meðal með stofnun umræddrar Rögnu-nefndar. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég verð að koma upp og segja frá þessu vegna þess að ég tel einsýnt að borgin ætlar með einhverjum (Forseti hringir.) ráðum að koma flugvellinum í burtu og það verður að stöðva. (VigH: Sama hvað það kostar?)