144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nýlega barst hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd minnisblað frá hv. stærðfræðingi Þorkeli Helgasyni og varðar það birtar niðurstöður úr þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem haldin var 20. október 2012. Mig langar að lesa aðeins úr því, með leyfi forseta:

„Það er álit undirritaðs að hlutfallstölur um úrslit þessarar atkvæðagreiðslu eins og þær hafa verið birtar í annarri af tveimur tilkynningum landskjörstjórnar, hjá innanríkisráðuneytinu svo og sem aðalniðurstaða í riti Hagstofunnar, séu villandi.

Rangfærslan byggist á því að atkvæði þar sem tiltekinni spurningu er ekki svarað eru engu að síður talin til gildra en ekki auðra atkvæða varðandi viðkomandi spurningu og hlutfallstölur reiknaðar í samræmi við það. Samtala hlutfalla já-svara og nei-svara er því ekki 100%. Þannig getur það gerst, samkvæmt þessari túlkun, að tillaga sem borin væri undir þjóðaratkvæðagreiðslu teljist hvorki hafa verið samþykkt né að henni hafi verið hafnað. Hlutfallstölurnar sem hafa verið birtar gefa því ekki þá mynd sem löggjafinn hlýtur að hafa verið að leita eftir, þar sem fram eigi að koma vilji þeirra sem tóku afstöðu til hverrar spurningar fyrir sig, og þeirra einna.“

Ef maður lítur á tölurnar fyrir og eftir að þær hafa verið leiðréttar getur munurinn verið talsverður, t.d. varðandi 6. spurningu sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?“

Í minnisblaðinu má sjá að hlutfallstala já-svara við þessari spurningu í birtum niðurstöðum er 63,4%, en rétta talan er 73,3%. Það er munur upp á 9,9%.

Mér þótti rétt að taka fram hér á hinu háa Alþingi að þær niðurstöður sem hafa verið birtar eru villandi eða sumar þeirra í það minnsta og það er mikilvægt að hafa það í huga. Í öllum tilfellum sé ég hærri hlutfallstölur já-svara eftir þessa endurútreikninga þar sem tölurnar eru réttar (Forseti hringir.) samkvæmt þeim forsendum sem nefndar hafa verið.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.