144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[15:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum. Markmið frumvarpsins er að treysta fjárhagslegt sjálfstæði Seðlabanka Íslands og koma fjárhagslegum samskiptum ríkissjóðs og Seðlabankans í fastara form en nú er.

Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en varð ekki útrætt og er það nú endurflutt með nokkuð breyttu sniði án þess að um verulegar efnisbreytingar sé að ræða.

Lagt er til að árlega taki Seðlabankinn ákvörðun um eiginfjármarkmið sem ætlað er að gefa til kynna hver viðunandi eiginfjárstaða bankans sé á hverjum tíma. Nánar tiltekið er lagt til að markmiðið grundvallist á eftirfarandi viðmiðum:

1. Tekjur bankans af eignum sem fjármagnaðar eru með skuldum sem ekki bera vexti standi undir rekstrarkostnaði bankans. Með því er annars vegar átt við seðla og mynt í umferð og hins vegar innborgað eigið fé.

2. Áhættu sem til staðar er á efnahagsreikningi bankans sem ráðast mun á grundvelli skilgreindrar/tölfræðilegrar aðferðafræði.

3. Óvissu sem bankinn stendur frammi fyrir á hverjum tíma í ljósi sviðsmyndagreiningar sem ætlað er að ná til næstu þriggja ára.

Lagt er til að ráðstöfun á árlegum hagnaði bankans í ríkissjóð taki mið af eiginfjármarkmiði bankans að því leyti að ef eiginfjárstaðan er lakari en markmiðið kveður á um verður bankanum, að fenginni umsögn ráðherra, heimilt að halda eftir hagnaði að því marki sem þörf er á til að uppfylla markmiðið. Eins og fram kemur í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að bankaráð Seðlabankans staðfesti ákvörðunina um eiginfjármarkmið og ráðstöfun hagnaðar.

Í þessu samhengi er þó rétt að taka fram að ekki er gert ráð fyrir að óinnleystur bókfærður hagnaður í uppgjöri bankans geti myndað grundvöll til greiðslu hagnaðar til ríkissjóðs. Í samræmi við það mun Seðlabankinn halda sérstakan reikning, gangvirðisreikning, meðal eiginfjárreikninga, sem ætlað er að halda utan um hreyfingar vegna hagnaðar og taps sem myndast hefur vegna verðbreytinga á markaði. Þessum reikningi er einkum ætlað að halda utan um gangvirðisbreytingar vegna gengis krónunnar og verðbreytingar á eignum og skuldum.

Þá er lagt til að ríkissjóður gefi út stofnfjárloforð sem geri bankanum kleift á hverjum tíma að uppfylla eiginfjárviðmið. Í loforðinu felst að ríkissjóður skuldbindur sig á grundvelli heimildar í fjárlögum til að leggja bankanum til eigið fé í formi markaðshæfra eigna fyrir 52 milljarða kr., sem bankinn getur innleyst að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Seðlabankinn mun þannig á grundvelli loforðsins geta kallað eftir auknu framlagi ríkissjóðs ef fyrirsjáanlegt er, samkvæmt framangreindu mati, að eigið fé bankans dugi ekki til að mæta lágmarksþörf þrátt fyrir að bankinn haldi eftir hagnaði og leggi við eigið fé sitt.

Áður en að innköllun kemur skal því fyrst ganga úr skugga um hvort hægt sé að ná æskilegri stöðu með því að halda eftir hagnaði og bæta við eigið fé. Fyrirkomulagið um innkallanlegt eigið fé mun gera Seðlabankanum kleift að vera með betri eiginfjárstöðu en ella.

Breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu taka mið af sjónarmiðum og ábendingum frá Seðlabanka Íslands sem fram komu í meðferð málsins á síðasta löggjafarþingi.

Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til viðbót sem tekur af öll tvímæli um það að formlega séð er um að ræða tvær ákvarðanir Seðlabankans, annars vegar varðandi eiginfjármarkmið og hins vegar ráðstöfun hagnaðar.

Í 2. gr. eru lagðar til breytingar á 32. gr. laga um Seðlabanka Íslands um gerð ársreiknings sem ekki er að finna í hinu fyrra frumvarpi. Með þessu er tekið mið af ábendingum Seðlabankans um hvernig staðið verður að því í reikningsskilum bankans að færa skuldbindingu ríkissjóðs samkvæmt 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins.

Ákvæði 3. gr. er að nokkru breytt frá því sem fram kom í 2. gr. eldra frumvarps og lýtur breytingin aðallega að breyttu orðavali og framsetningu auk þess sem ekki er gerð tillaga um að þau viðmið eða eiginfjárþættir sem liggja eiga til grundvallar ákvörðun á eiginfjármarkmiði bankans verði útlistaðir með jafn ítarlegum hætti og áður.

Loks er lagt til í 4. gr. að heimilt verði að lækka stöðu stofnfjár í Seðlabanka Íslands um allt að 26 milljarða kr. án þess að draga úr fjárhagslegum styrk bankans. Lækkunin leiðir í eðli sínu af öðrum breytingum sem fram koma í frumvarpinu, einkum þeim sem lúta að ákvörðun á eiginfjármarkmiði og heimild bankans til að innkalla eigið fé úr hendi ríkissjóðs. Þeim fjármunum verður varið til að lækka það skuldabréf sem ríkissjóður gaf út til að styrkja eigið fé bankans í kjölfar veðtapa sem bankinn varð fyrir við fall fjármálafyrirtækja á árinu 2008. Með því dregur úr vaxtakostnaði ríkissjóðs um 1,3 milljarða kr. á ári og skuldsetning ríkissjóðs lækkar um 26 milljarða eða nálægt 1,5% af landsframleiðslu.

Til grundvallar frumvarpinu liggur starf vinnuhóps sem fjármálaráðuneyti og Seðlabanki Íslands komu á fót í upphafi árs 2012 til að endurskoða fjárhagsleg samskipti ríkissjóðs og bankans. Meðal þess sem hópurinn tók til skoðunar voru reglur um ráðstöfun árlegs hagnaðar Seðlabankans og mat á eiginfjárþörf bankans. Hópurinn hafði til hliðsjónar skýrslur og ráðgjöf utanaðkomandi sérfræðinga, auk þess sem litið var til löggjafar um seðlabanka annarra landa.

Samstaða var um það innan vinnuhópsins að núgildandi regla um ráðstöfun hagnaðar Seðlabankans tryggi ekki fjárhagslegt sjálfstæði bankans á fullnægjandi hátt og geti í sumum tilvikum gengið gegn markmiðum peningastefnunnar. Þannig getur komið til greiðslu hagnaðar til ríkissjóðs þrátt fyrir að eiginfjárstaðan sé talin ófullnægjandi, jafnvel þegar hún er neikvæð. Þá gæti núverandi umgjörð sömuleiðis leitt til þess að eiginfjárstaða bankans yrði mun sterkari en þörf er á.

Í ákvæði 34. gr. laga um Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir að árlegur hagnaður greiðist í ríkissjóð ef honum er til að dreifa, óháð því hvert eigið fé bankans er. Eiginfjárstaðan hefur aftur á móti áhrif á það hversu hátt hlutfall hagnaðarins skuli greitt í ríkissjóð. Ef eigið fé bankans svarar ekki að lágmarki til 2,25% af fjárhæð útlána og innlendrar verðbréfaeignar lánakerfisins í lok árs á undan skal aðeins greiða þriðjung hagnaðarins en annars 2/3 hluta hans.

Fjárhagslegt sjálfstæði seðlabanka felur í sér þrennt; í fyrsta lagi að bankinn hafi sjálfstæðan rekstur og hann þurfi því ekki að reiða sig á opinber framlög með sama hætti og aðrar ríkisstofnanir, í öðru lagi að bankinn hafi fjárhagslegan styrk sem geri honum kleift að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem ráðast þarf í til að uppfylla markmið bankans og í þriðja lagi að stofnanaumgjörðin er lýtur að fjárhagslegum samskiptum seðlabanka og ríkissjóðs stuðli að því að æskilegum fjárhagslegum styrk sé viðhaldið.

Reynslan sýnir að þær aðstæður geta skapast að fjárhagsleg staða seðlabanka almennt setji stefnumörkun þeirra á sviði peninga- og gjaldeyrismála skorður sem kemur niður, eða að minnsta kosti getur komið niður, á árangri þeirra við að tryggja verðstöðugleika. Frumvarpið hefur framangreind sjónarmið að leiðarljósi.

Herra forseti. Að þessu sögðu legg ég til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem fær málið til skoðunar.