144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[15:54]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er lagt fram var einnig lagt fram á vorþingi en hlaut ekki afgreiðslu síðastliðið vor. Það kom okkur í efnahags- og viðskiptanefnd nokkuð óþægilega á óvart í vor að ekki væri full samstaða um efnisinnihald frumvarpsins milli ráðuneytis og Seðlabanka Íslands, sem er sérstakt áhyggjuefni því að í umgjörð hinna fjármálalegu tengsla ráðuneytisins og Seðlabankans er einmitt að finna haldið fyrir faglegu sjálfstæði seðlabanka og getu hans til að reka sjálfstæða peningamálastefnu. Síðan hafa verið gerðar breytingar á málinu sem ég hlakka til að fara yfir í þingnefndinni. Það er mikilvægt að ganga úr skugga um að þessar breytingar séu með þeim hætti að þær samrýmist alþjóðlegum viðmiðum um starfshætti og fjárhagslegt sjálfstæði seðlabanka og haggi ekki við getu Seðlabankans til að sinna þeim verkefnum sem hann á að vera sjálfstæður í, þ.e. stjórnun peningamála.

Ég vil að öðru leyti nefna það, vegna þess að það er óhjákvæmilegt þegar þetta mál kemur til umræðu, að í því er fólginn stærstur hluti þess afgangs af ríkisrekstri á þessu ári sem ríkisstjórnin hefur gumað mjög af á síðustu vikum. Það er athyglisvert að afkomubati ríkissjóðs á þessu ári skuli stafa í grunninn af tvennu; bókhaldsbrellu sem hér er um að ræða þar sem í reynd er verið að breyta uppgjörsaðferðum og þar með búa til reikningslegan hagnað fyrir ríkissjóð, og hins vegar af meiri heimtum af fjármálafyrirtækjum, sem stafar af endurmati eigna þeirra en ekki af því að regluleg starfsemi bankanna skili meiri hagnaði en ráð var fyrir gert.

Með öðrum orðum, við njótum nú í bættri afkomu ríkissjóðs annars vegar bókhaldsbrellna og hins vegar einskiptisávinnings sem ekki mun koma aftur vegna endurmats á eignum banka vegna þess að regluleg starfsemi bankanna er í járnum miðað við allar þær greiningar sem við sjáum. Það er vert að hafa það í huga vegna þess að afkomubatinn núna má ekki verða til þess að birgja okkur sýn á þá raunverulegu stöðu sem hagkerfið er í.

Hægt er að horfa á listann yfir opinber framlög lögaðila sem birtur var nýverið. Hann er um að mörgu leyti uggvekjandi lesning. Á listanum yfir 40 útgjaldahæstu lögaðila landsins er að sjálfsögðu hið opinbera í ýmsum formum; ríkið, sveitarfélög og stærstu opinber fyrirtæki. Þar er að finna ein sjö sjávarútvegsfyrirtæki, sem kemur manni ekki á óvart í ljósi þess að þar er um að ræða grundvallaratvinnugrein fyrir Ísland. Hverju skila þekkingarfyrirtækin? Jú, á listanum yfir 40 stærstu gjaldendur meðal lögaðila er að finna tvö þekkingarfyrirtæki, sem vel að merkja voru bæði til fyrir tíu árum síðan og hafa bæði flutt drjúgan hluta starfsemi sinnar af landi brott, Marel og Össur. Þau hafa bæði sagt að áframhaldandi starf sé þeim illmögulegt hér á landi í viðjum íslenskrar krónu.

Við vitum að ferðaþjónustan er vaxandi atvinnuvegur í landinu og við bindum miklar vonir við hana. Það er eitt ferðaþjónustufyrirtæki sem kemst inn á listann yfir 40 hæstu gjaldendur, lögaðila, sem er Icelandair með tvær aðskildar kennitölur.

Það sem vekur athygli er að á listanum er að finna hvorki fleiri né færri en tólf — ég endurtek: tólf banka, fjármálafyrirtæki og slitastjórnir. Tólf. Og meira að segja lögmannsstofu sem unnið hefur mikið fyrir erlenda kröfuhafa.

Fátt sýnir okkur betur en þessi upptalning hversu viðkvæmur sá efnahagsviðsnúningur er sem við sjáum í bættum afkomutölum ríkissjóðs á þessu ári, vegna þess að hér er um að ræða ávinning sem við fáum nú vegna endurmats á eignum banka, vegna arðs sem við fáum af þrotabúum og hvort tveggja er uppspretta sem ekki mun gefa af sér auðsæld á komandi árum. Hér er um að ræða það sem á ensku væri kallað „windfall“ og vantar kannski hliðstætt heiti yfir á íslensku. (Gripið fram í: Hvalreki.) Já, hvalreki er kannski það orð sem hægt er að nota helst í því sambandi, því að hvalrekar eru ekki nokkuð sem við getum reiknað með og gengið út frá að verði viss þáttur í efnahagsstjórn okkar á komandi árum og áratugum. Þó að við njótum nú ákveðins tímabundins ávinnings af þessu endurmati eigna og af því sem við höfum getað lagt á þrotabúin þá er okkur ekki í því varanlegt skjól.

Þess vegna vildi ég láta þessi viðvörunarorð koma fram í umræðu um þetta mál vegna þess að hér er til umræðu stærsti hlutinn af afkomubata ríkissjóðs á þessu ári, enduruppsetning á efnahagsreikningnum, sem ekki býr til nein ný raunveruleg verðmæti en skapar vissulega bókhaldshagnað. Honum ber að fagna en hann verður ekki til að auka íslenskri þjóð velsæld.