144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann sagði að þessi einskiptishagnaður af Seðlabankanum kæmi ekki aftur. Nú eru eitthvað um 400–500 milljarðar kr. í eigu útlendinga og flestir eru sammála um að þeim peningum þurfi að eyða með einhverjum hætti, kveikja í þeim. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvernig gerist það?

Segjum að þeim peningum sé náð með útgönguskatti og þá koma inn tekjur, og síðan þarf að eyða þeim, væntanlega sem gjöld. Spurningin er sú: Er hv. þingmaður svo viss um að mönnum takist að stilla það svo nákvæmlega af að ekki slettist eins og 10, 15–20 milljarðar inn til ríkissjóðs eða út? Þetta er jú allt saman ákveðinni óvissu háð. Er víst eða getur verið að það verði þvílík rólegheit á næstu árum að Seðlabankinn komi ekki aftur með slíka einskiptiseingreiðslu?