144. löggjafarþing — 35. fundur,  19. nóv. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[16:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er engan veginn sammála hv. þingmanni að þetta mál komi þessu máli ekkert við. Það er spurningin sem ég spurði, því að í 4. gr. er einmitt verið að fjalla um 26 milljarða sem á að fá hjá Seðlabankanum. Ég kom inn á athugasemd hv. þingmanns um að slíkt mundi ekki gerast aftur. Ég hef grun um að það muni gerast aftur og ekki bara grun, ég er nokkuð viss um að það muni gerast aftur vegna allra þeirra króna sem útlendingar eiga hér í hagkerfinu. Þetta skiptir verulegu máli og það stendur til samkvæmt vilja allra, held ég, að aflétta gjaldeyrishöftunum, fyrr en seinna, og hluti af því eru miklir flutningar á fjármunum, mörg hundruð milljörðum, út og inn þannig að það verða örugglega miklar sviptingar í eignum Seðlabankans.